Pastedgraphic 1

Jóhanna V. Þórhallsdóttir sýnir í Anarkíu

Þann 3. september sl. opnaði sýning Jóhönnu V. Þórhallsdóttur í Anarkíu. Hún ber titilinn Fljóð og fossar.

Sýningin stendur til 26. september.

Fljóð og fossar

Rennandi vatn, fljót og fossar hafa heillað hugsandi fólk um aldir. Gríski heimspekingurinn Herakleitos velti þessu fyrir sér og sagði Panta rei, allt flýtur. Hann hélt því fram að enginn stigi nokkru sinni í sama fljótið vegna þess að það væri á stöðugri hreyfingu. Náttúran er lifandi fyrirbæri og síbreytileg eins og fljótin á Skeiðarársandi. Töfrar Íslands felast í þessum breytileika þar sem ár og fossar skipta stöðugt um ham. Lækjarspræna getur orðið að skaðræðisfljóti. Fossar skipta um búning eftir veðri og árstíðum.

Konum hefur oft verið líkt við vatnið. Gömlu Grikkirnir sögðu að sjór, eldur og konan væru þrír bölvaldar sem eiga breytileikann sameiginlegan. Karlmenn hafa um aldir kvartað undan dyntum og skapsveiflum kvenna. Í Hávamálum er varað við meyjarorðum og öllu sem konur kveða. Þeim væri aldrei treystandi fremur en íslenskri jökulsá sem bæði drepur og glæðir sandana lífi.

Jóhanna V. Þórhallsdóttir gerir fossa og konur að myndefni sínu á þessari sýningu. Hún kallar fram á strigann hreyfingu og breytileika vatns og konu. Hún hefur um nokkurt skeið verið í læri hjá Markúsi Lüpertz í Suður Þýskalandi. Þar eru fáir fossar en þeim mun meiri lifandi saga frá liðinni öld. München er enn að jafna sig eftir lágvaxna húsamálarann með yfirskeggið sem kom, sá og sigraði borgina og leiddi hana í glötun. Við hlið hans voru dularfullar konur sem tortímdust með honum í eldum síðari heimstyrjaldarinnar. Eva Braun, Leni Riefenstahl og Hanna Reitsch voru konurnar í miðjum hvirfilbylnum. Þær voru óræðar eins og vatnið sem bæði tekur líf og gefur líf.

Jóhanna tengir þessi skynhrif við hina síbreytilegu og lifandi íslensku náttúru. Konur og fossar eru varhugaverð og hættuleg. Enginn skyldi leika sér að fossinum og hefnd særðrar konu er alltaf grimmileg og ófyrirsjáanleg. Börnin sem hurfu ofan í Hraunfossa fá nýtt líf í vatnsflaumnum. Eva Braun hristir af sér blásýruvímuna og gengur í endurnýjun lífdaga í löðrinu frá fossinum. Sagan gengur í eina sæng með íslenskri náttúru og verður að einni heild.

Fljóð og fossar er þriðja einkasýning Jóhönnu V. Þórhallsdóttur. Hún starfaði um árabil við söng og kórstjórn. Hún hefur nú snúið sér aðalfarið að málaralistinni en músikkin er alls staðar sjáanleg og heyranleg í verkum hennar. Fossarnir og fljóðin syngja einum rómi, stundum í takt en oftar sitt í hvoru lagi. Kórstjórinn Jóhanna stendur og stjórnar tónlistinni með málarapensli sínum og kallar fleiri skynfæri til liðs við sig. Myndir hennar eru varhugaverðar eins og hvítfyssandi stórfljót eða þýskur kvennjósnari. Hún sýnir og sannar og mynd er mikið meira en bara mynd.  Ó.G.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com