67084958 2278384105548206 3951444296858599424 O

Jóhanna Ásgeirsdóttir nýr listrænn stjórnandi Listar án landamæra

Jóhanna Ásgeirsdóttir, myndlistarmaður og kennari, hefur verið ráðin listrænn stjórnandi Listar án landamæra.


Jóhanna er myndlistarmaður, kennari og hagsmunafulltrúi stúdenta. Hún lauk grunnnámi í myndlist frá New York University og meistaranámi í listkennslu frá Listaháskóla Íslands.Jóhanna hefur tekið þátt í og sýningarstýrt myndlistarsýningum á Íslandi, í Berlín og New York. Hún er stofnmeðlimur listhópanna Isle of Games, samstarfi leikjahönnuða, sem og Endurhugsa, listhóps sem fjallar um umhverfismál. Sjálfstæð listsköpun hennar tvinnast oft saman við fræðslu um vísindi og umhverfismál. Hún hefur haldið ótal listasmiðjur í skólum, á sýningum, söfnum og hátíðum innan sem utan höfuðborgarsvæðisins. Hún kennir bæði í listkennsludeild Listaháskóla Íslands og á barnanámskeiðum í myndlistaskóla Reykjavíkur.

Lokaverkefni hennar frá LHÍ hét Óravíddir og er stærðfræðinámsefni miðlað með aðferðum lista. Af því verkefni hefur sprottið samstarf við Hönnunarsafn Íslands, þar sem hún hefur rannsakað og hannað fræðsluefni um verk Einars Þorsteins Ásgeirssonar.

Undanfarið ár hefur Jóhanna verið fullu starfi sem forsvarsaðili stúdentabaráttunnar á landsvísu sem forseti Landssamtaka íslenskra stúdenta. Starfið felur í sér að standa vörð um hagsmuni stúdenta en einnig að vinna að því að gera háskólanám aðgengilegt sem víðasta hópi fólks. Jóhönnu er annt um mannréttindamál og hlakkar til að sinna starfi Listræns stjórnanda Listar án landamæra, hlutverk sem tengir vinnu í listum saman við jafnréttisbaráttu.

List án landamæra er listahátíð sem leggur áherslu á list fatlaðra listamanna. Hátíðin hefur verið haldin síðan 2003 og sýnir hún allar listgreinar. Hátíðin fer fram að hausti.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com