Haustro%cc%88kkrid Jazz Ny

Jazz í hádeginu | Hauströkkrið yfir mér | Borgarbókasafnið

Borgarbókasafnið | Menningarhús Grófinni
Föstudaginn 4. nóvember kl. 12.15 – 13.00
Laugardaginn 5. nóvember kl. 13.15 – 14.00

Í nóvember verður boðið upp á tvenna tónleika undir yfirskriftinni Jazz í hádeginu. Leifur Gunnarsson er listrænn stjórnandi tónleikaraðarinnar og hefur að þessu sinni fengið til liðs við sig tónlistarmenn sem allir hafa vakið athygli á íslensku jazzsenunni. Flutt verða gömul og ný verk við ljóð Snorra Hjartarsonar.
Boðið er upp á tónleikana í tilefni af sýningu á verkum Snorra Hjartarsonar undir yfirskriftinni Inn á græna skóga. Á sýningunni má lesa og heyra lesin ljóð Snorra sem birtust í bókum hans Kvæði (1944), Á Gnitaheiði (1952), Lauf og stjörnur (1966) og Hauströkkrið yfir mér (1979), auk ljóða sem Snorri orti eftir útgáfu Hauströkkursins og hann lét eftir sig óprentuð.
Sýningin verður á Ljóðatorgi á fimmtu hæð bókasafnsins og stendur út febrúar 2017. Sýningin og dagskrá henni tengd er í samstarfi við félagið Ljóðvegi og Landsbókasafn Íslands, Háskólabókasafn.
Aðgangur á tónleikana og sýninguna er ókeypis og allir velkomnir.

Um flytjendurna:
Leifur Gunnarsson er fæddur árið 1985 og hóf leik á kontrabassa þegar hann var 18 ára eftir að hafa spilað á rafmagnsbassa um hríð. Leifur lagði stund á tónlistarnám og útskrifaðist frá Tónlistarskóla FÍH vorið 2009. Ári síðar hóf hann svo nám við Rytmisk Musikkonservatorium í Kaupmannahöfn undir leiðsögn Jens Skou og Klavs Hovman þaðan sem hann lauk námi vorið 2013. Sjá nánar: heimasíða Leifs.
Sigríður Thorlacius hóf klassískt söngnám við Söngskólann í Reykjavík árið 1998. Árið 2004 hóf hún svo nám við Tónlistarskóla FÍH þaðan sem hún lauk burtfararprófi frá jazzdeild skólans vorið 2008. Árið 2006 gekk hún til liðs við Hjaltalín og hefur starfað með þeim síðan. Auk eigin verkefna hefur Sigríður sungið með ótal íslenskum listamönnum, m.a. Retro Stefson, Baggalúti, Björgvini Halldórssyni, Megasi og Memfismafíunni.
Hjörtur Ingvi Jóhannsson er fæddur 1987. Hann flutti nýverið heim til Íslands eftir að hafa numið djasspíanóleik í Konservatoríinu í Amsterdam. Þar áður hafði hann lokið námi af sígildri braut í tónlistarskóla FÍH. Hjörtur er hljómborðsleikari hljómsveitanna Hjaltalín og Snorra Helgason, auk þess sem hann kemur fram með fjölbreyttum listamönnum, útsetur og semur lög. Hjörtur kennir einnig við Tónlistarskóla Árbæjar og leikur undir hjá söngnemendum í tónlistarskóla FÍH.

Upplýsingar um tónleikaröðina Jazz í hádeginu er að finna á heimasíðu Borgarbókasafnsins

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com