I8gallery

JANICE KERBEL | Sinkfight 28. mars – 25. maí 2019 i8 Gallery Reykjavík

Þó Janice Kerbel noti gjarnan tungumálið og önnur óhlutbundin kerfi vísar hún iðulega í mannslíkamann.

Í seríunni Brawl (2018) eru gríðarstór silkiþrykk þar sem koma fyrir sagnorð og nafnorð í ólíkum leturgerðum sem eru lögð niður og jafnvel sáldrað um portrettlaga örkina. Orðin tákna ekki bara aðgerðir heldur líka ýmiss konar ofbeldisverknað líkt og að slá, hrifsa, skalla, kýla, ýta, ryðjast, svo einhver orð séu nefnd. Stærð pappírs arkarinnar vísar til mannslíkamans og þess rýmis sem líkaminn tekur.

Í þrykkverkunum, þá raðast orðin á myndflötinn og afmarka átökin, og geta því lesist annað hvort sem skipanir frá danshöfundi sem hvergi sést, eða sem myndlýsing á viðburði, sönnum eða skálduðum. Þannig verður áhorfandinn var við þá gjá sem myndast milli hins óhlutbundna mynsturs sem orðin mynda og þeirra líkamlegu skrípaláta sem orðin tákna eða reyna að tákna. Niðurstaðan er áþreifanleg fjarvera.

Verkið Sink (2018) framkallar álíka áhrif. Hún nálgast lögun og áferð pappírsarkarinnar líkt og um ferhyrnda sundlaug væri um að ræða. Í lauginni eru stílfærðar mannverur sem tákna ólíka sundmenn og með endurtekningu mynda þeir mynstur. Þeir tákna ólíkar líkamsstöður í lauginni, en þéttni þeirra og mismunandi lögun verða brot af stærri heild sem á sér sín eigin einkenni. Táknmyndirnar gætu vísað oddhvössum handleggjum framávið eða glennt út fótleggina líkt og nál í áttavita, og svo dregist saman í einn svartan blekpunkt. Þessar fíngerðu táknmyndir vísa til líkama af holdi og blóði á kafi í vatni, gefa til kynna holdlega ofgnótt.

Bæði verkin, Brawl og Sink, virðast ströng í framsetningu þrátt fyrir að lýsa handahófskenndum hreyfingum ófullkominna líkama. En samt sem áður eru hefðir og ákveðnar reglur bæði í átökum og samhæfðu sundi. Orðið upphögg (e. uppercut) í einu verkanna í Brawl vísar til ákveðinnar hreyfingar sem æfð er alltaf með sama hætti og framkvæmd á hárnákvæmum tíma.

Samhæft sund er vissulega mjög mótuð athöfn sem vekur athygli fyrir það hversu nákvæmlega tímasettar og samhverfar sundhreyfingarnar eru og hvernig þær virðast á skjön við öll náttúrulögmál. Verkin hreyfa við ímyndunarafli áhorfandans, einkum þegar hann verður var við ósamræmið á milli hinna óhlutbundnu kerfa og einstakra líkama og þeirra gjörða sem táknmyndirnar geta komið af stað.

En svo snúum við aftur að pappírsverkunum og virðum þau fyrir okkur sem hluti, eða sem líkama sem eru í ákveðinni stellingu, hafa hver sína þyngd og snertanleika. Í verkunum Brawl verðum við vör við dýpt og þéttleika bleksins, gárótt yfirborð letursins og sjáum hvernig flöturinn verður þykkari þegar stafirnir raðast hver ofan á annan. Í verkunum Sink er auðsætt að Janice Kerbel er vakandi yfir eiginleikum pappírsins og prentar á hann báðum megin, og því verðurgagnsæiarkarinnar til að tákna að einhver sé í kafi að hluta eða öllu leyti, yfirborð pappírsins verður því að yfirborði vatnsins. Listamaðurinn prentar á örkina með eigin hendi og gætir þar ónákvæmni hinnar mannlegu handar.

Janice Kerbel hefur rannsókn sína með því að skoða það bil sem myndast á milli óhlutbundinna táknmynda og þeirra athafna sem þau tákngera og heldur svo áfram með því að víkka rýmið enn frekar. Sink og Brawl krefjast viðbragða frá áhorfandanum, huganum er ýtt og hrint og verkin vekja spurninguna hvernig við getum notað vitund okkar til þess að óhlutbundin hugmynd geti tekið á sig svo skýra líkamlega mynd.

Janice Kerbel (f. 1969 í Torontó) býr og starfar í Lundúnum. Verk hennar Sink var flutt í The Western Baths í Glasgow að frumkvæði The Common Guild árið 2018. Meðal nýlegra sýninga má nefna Beautiful World Where Are You?, Liverpool Biennial (2018); Fight, greengrassi, Lundúnum (2018); Alphabet, Hamburger Kunsthalle (2018); Space Force Construction, V-A-C Foundation, Feneyjum (2017); Doug í Fundaçao de Serralves í Porto í Portúgal (2017); Le Grand Balcon: Montreal Biennial (2017); Score, Catriona Jeffries, Vankúver (2015); Turner Prize 2015, Tramway Glasgow; Arts Club of Chicago (2012); Kill the Workers!, Chisenhale Gallery, Lundúnum (2011); og See It Now, Art Now: Tate Britain, Lundúnum (2010).

Verk hennar Doug var tilnefnt til Turner verðlaunanna árið 2015, en gjörningurinn hafði áður verið fluttur í The Common Guild í Glasgow árið 2014.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com