Borgarsögusafn

Íslensk kjötsúpa í Ljósmyndasafni Reykjavíkur

Íslensk kjötsúpa er yfirskrift sýningar með ljósmyndum eftir Kristjón Haraldsson sem opnuð verður í Ljósmyndasafni Reykjavíkur laugardaginn 18. maí kl. 15.

Sýningin setur ljósmyndarann Kristjón Haraldsson í sviðsljósið jafnframt því sem athygli er beint að verklagi, úrvinnslu og stíl í ljósmyndun. Samhliða því sem aðferðir í ljósmyndun eru teknar til skoðunar er sjónum beint að ljósmyndaranum á bak við myndavélina og þannig er dregin upp mynd af Kristjóni, fjölskyldu hans og íslensku þjóðinni á áttunda áratugnum.

Apríl 1974, fermingarveisla Ásgeirs Ásgeirssonar í fjölskyldu ljósmyndara. Tvær konur og strákur í eldhúsi. Önnur konan klæðist upphlut. Eldhús, loftljós, eldhúsborð, veggfóður.

Kristjón Haraldsson (1945–2011) ljósmyndari vann fyrst og fremst við auglýsingaljósmyndun á áttunda og níunda áratugnum. Á þessu tímabili var Kristjón vel þekktur fyrir tískuljósmyndir sínar, myndir á plötuumslögum og auglýsingaljósmyndir. Árið 1973 var mynd hans af gosinu í Vestmannaeyjum birt í tímaritinu National Geographic. Margar myndanna á þessari sýningu, frá auglýsingaherferðum hans og ljósmyndatökum af frægum myndlistarmönnum og tónlistarmönnum, voru teknar í ljósmyndastúdíói hans, Stúdíó 28, sem enn er haft í minnum þegar arfleifð hans kemur við sögu. Ásamt myndum sem hann tók í atvinnuskyni eru á sýningunni myndir eftir Kristjón sem eru mun persónulegri, nærgöngular myndir af hversdagslífi fólks, sem sýna glöggt hans listræna auga. Nú er þetta safn mynda sýnt í nýju samhengi og ljósi varpað á afkastamikinn feril Kristjóns.

Sýningastjóri er Daría Sól Andrews. Sýningin stendur til 8. september 2019. Nánari upplýsingar hér.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com