Ingunn 1 Net

Ingunn Fjóla sýnir í 002 Gallerí um helgina

Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir sýnir

Gagnvirka innsetningu

á Ljóslistahátíð í 002 Galleríi

Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir opnar sýningu í 002 Galleríi laugardaginn 27. janúar klukkan 14.  Sýningin er sú fyrsta af fjórum á ljóslistahátíð 002 Gallerís, en þetta sérstaka gallerí er staðsett á heimili Birgis Sigurðssonar, myndlistarmanns og rafvirkja, í íbúð 002 að Þúfubarði 17 í Hafnarfirði.

Sýning Ingunnar Fjólu er innsetning þar sem samband áhorfanda, verks og rýmis er kannað í gegnum lýsingu, hreyfingu og málaða fleti. Með hjálp hreyfiskynjara verður nærvera og hreyfing áhorfandans hluti af verkinu, sem tekur breytingum eftir því hvar áhorfandinn stendur og hverju hann beinir sjónum sínum að. Sýningin opnar klukkan 14, laugardaginn 27. janúar og er opin til 17 á laugardag og frá 14 til 17 á sunnudag. Allir eru hjartanlega velkomnir, en athugið að sýningin er aðeins opin þessa einu helgi.

Ingunn Fjóla (f. 1976) hefur lengi fengist við málverkið og þá sérstaklega samtal þess við rýmið. Hefur hún beitt ýmsum aðferðum til að umbreyta rýminu, ýmist með því að þenja málverkin út í rýmið eða byggja þrívíðar innsetningar sem áhorfandinn gengur inn í. Ingunn Fjóla útskrifaðist með MA gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands vorið 2017, en hún útskrifaðist með BA gráðu í myndlist frá sama skóla árið 2007. Áður hafði hún lokið BA prófi í listasögu frá háskólanum í Árósum. Verk Ingunnar Fjólu hafa verið sýnd víða í söfnum og galleríum. Þar ber helst að nefna einkasýningar í Hafnarborg, Gallerí Ágúst og Cuxhavener Kunstverein, þátttöku í alþjóðlega tvíæringnum í Prag auk fjölda samsýninga innanlands og erlendis. Á ferli sínum hefur Ingunn Fjóla hlotið ýmsa styrki og viðurkenningar svo sem hvatningastyrk Hafnarfjarðarbæjar til ungra listamanna árið 2009 og styrk úr styrktarsjóði Svavars Guðnasonar og Ástu Eiríksdóttir árið 2012. Undanfarin ár hefur hún bæði starfað við eigin myndlistarverkefni og sem annar helmingur tvíeykisins Hugsteypunnar. Á sýningunni í Gallerí 002 verður skynjun áhorfenda virkjuð með gagnvirkum eiginleikum sem draga fram líkamlegt og leikrænt samband milli áhorfenda og verks.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com