Induced Creativety

far away

 

I N D U C E D     C R E A T I V I T Y

Georgia / Ísland 2015/2016

Í vor er áætlaður fyrsti fundur verkefnisins Induced Creativity í Tbilisi, Georgíu í Nectar Gallerí í samtali við þarlendar stofnanir, Geo Air og DVV í formi stefnumóts; vinnustofudvalar, sýningar og opinna umræðufunda.

Á Íslandi á næsta ári eru áætlaðir tveir viðkomustaðir á austfjörðum í Here, miðstöð sköpunar á Stöðvafirði og á Seyðisfirði, í Skaftfelli miðstöð myndlistar á Austurlandi þar sem hópurinn hittist aftur, vinnur saman og setur upp sýningu í Bókabúð Verkefnarými og heldur opið samtal í Skaftfelli en færir sig svo til Reykjavíkur og á samtal við listamenn í Listaháskóla Íslands og víðar og að lokum verði niðurstöður samtalsins teknar saman í útgáfu í lok árs 2016. Verkefnið er stutt af Myndlistasjóði.

Hugmyndin um rými fyrir myndlist í jaðarsamfélögum og birtingarmyndir samvinnu er grunnurinn að verkefninu sem hefur verið í þróun á milli skipuleggjenda Gunnhildar Hauksdóttir og Katharinu Stadler síðan þær hittust á ráðstefnunni Between Miracles í Tbilisi árið 2012. Verkefnið felur í sér stefnumót og sýningar í Tbilisi í Georgíu, á Seyðisfirði og í Reykjavík. Þessar tímabundnu niðurstöður eiga sér stað að undanförnu samtali og hugmyndavinnu milli þátttakenda þar sem markmiðið er að ýta við öllum hlut að eigandi og hvetja til nýskoðunar á eigin hugsanagangi og hugmyndum um rými og myndlist.

Þáttakendur verkefnisins Induced Creativity hafa nú verið staðfestir eftir opið ákall sem lauk 15. janúar sl. og eru eftirfarandi frá Georgíu Data Chigholashvili, Dali Dardzhaniya & Katharina Stadler og frá Íslandi eru Katrín I Jónsdóttir Hjördísardóttir Hirt, Unnar Örn Auðarsson & Gunnhildur Hauksdóttir

Dali Dardzhaniya er arkitekt og myndlistamaður. Hún hefur á ferli sinum varpað ljósi umbreytingu borga og áhrif menningarlegrar og listrænnar ástundunar á borgarlandslög. Þessar hugleiðingar leiddu hana á braut innsetninga í almannarými sem hún hefur sett upp víðsvegar um austur Evrópu.

Data Chigholashvili vinnur á landamærum myndlistar og mannfræði með fókus á sjónræna og félagslega þætti í borgarlandslagi. Hann kannar vensl þessara faga með fræðilegri rannsókn útfrá myndlist og oft í samstarfi við aðra.

Gunnhildur Hauksdóttir er myndlistarmaður sem vinnur myndbands-, innsetninga- og gjörningatengd verk, oft með áherslu á samvinnu og/eða samruna listgreina. Þá hefur hún komið að sýningarstjórnun og veitti Nýlistasafninu formennsku þar til í Mars 2014 þar sem hún lagði áherslu á söfnun heimilda um frumkvæði listamanna í íslenskri menningu og á heimildir um gjörningalistir.

Katharina Stadler er austurrískur myndlistamaður, sýningastjóri og stofnandi Concept and Theory – Tbilisi. Verk hennar eru oft þverfagleg unnin í blandaða miðla, oft í samvinnu og með samfélagslegar áherslur. Hún leitast við að kanna þolmörk og form meðvitundar og trúir á mátt þess að spyrja spurninga frekar en að koma með svör við þeim.

Katrín Inga Jónsdóttir Hjördísardóttir Hirt fléttar landslagi og vistkerfi myndlistar samtímans á persónulegan hátt inn í verk sín. Hún vinnur í fjölbreytta miðla og list hennar einkennist af athöfnum, gjörningum og innsetningum þar sem hún veltir upp áleitnum spurningum um listina, eðli hennar og tilgangi í samfélaginu. 

Unnar Örn Auðarsson er myndlistarmaður sem vinnur á mörkum miðla og hugmyndafræði. Verk hans eru feril-tengd brot sem hlaðast upp og mynda heild sem lítur innri lögmálum. Vinna Unnars síðastliðin ár hefur tengst myndmáli viðspyrnu og skráningu á sögu þess innan opinberra stofnana hér á landi.

Það má færa rök fyrir því að íslenskt myndlistarlandslag sé byggt upp á frumkvæði listamanna á fimmta og sjötta áratug liðinnar aldar. Þessi uppbygging er lífræn og sprottin af þörf. Þessi sama grunn uppbygging er að eiga sér stað í Georgíu um þessar mundir. Yfirbygging og innviði myndlistarsamfélagsins á Íslandi er enn í mótun og sama á við um myndlistasamfélag Tbilisi í Georgíu, sem er enn skemur á veg komið í yfirbyggingu og innri þróun. Í fjarveru yfirbyggingar er einnig fólgin gróska og frelsi sem vert er að skoða nánar og ræða. Í henni felst möguleiki á því að leggja til rödd og hafa bein áhrif á orðræðu listar, leggja til málstað fyrir listheimspeki í mótun, tungumál um myndlist í mótun og yfirbyggingu í mótun. Þar er upphafspunktur hugmyndavinnu milli listamanna frá þessum tveimur svæðum sem mun skila sér í samtali. Niðurstaða þess verður tekin saman í opnum umræðum, fyrirlestrum, textum og svo myndlistarsýningu þar sem snertiflöturinn er samvinna og fjarvera og nærvera yfirbyggingar.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com