Íbbagoggur opnar myndlistarsýningu og gefur út myndasöguna Ljótur á tánum í Ekkisens laugardaginn 28. mars kl: 20

látíekkisensflæer     IMG_1835

 

Myndasagan Ljótur á tánum er fuglasaga um hjátrú, ósanngirni, tilætlunarsemi, þröngsýni og ofbeldi. Hún fjallar um krumma sem verður fyrir þeirri ólukku að setjast óvart á kirkjuþak og kallar þannig yfir sig reiði bæði klerks og kirkjugesta. Því einsog allir vita boðar það feigð þegar krummi sest á kirkjuþak en það vissi þessi krummi ekki.

Ekki jafn fyrirferðamikil en þó einnig til sýnis verður svarthvíta myndaröðin Litirnir.

„Íbbagoggur vinnur bara svarthvítt því svartur er uppáhaldsliturinn hans og honum finnst svarthvítar myndir fallegri en þær sem eru með litum, best væri ef allar myndir gætu verið bara svartar. Svo þarf heldur ekki endilega að vera að myndir séu með öllu litlausar þó þær séu svarthvítar. Heilinn lætur mann sjá ótrúlegustu liti þó þeir séu ekki sýnilegir.”

Íbbagoggur vill búa til verk sem fá áhorfanda/hlustanda að gleyma sér aðeins í smá stund. Hvort sem það er með því að búa til sögur, óhlutbundin málverk eða tónverk. Skemmtilegast finnst honum að teikna myndasögur og það er mikilvægt að gera það sem manni finnst skemmtileg. Það sem er honum mest hugleikið er virðing sem fólk á að sýna öðru fólki, dýrum og náttúrunni. Ljótur á tánum fjallar um það.

Ljótur á tánum er gefin út af forlaginu Rasspotín.
_____________________________________________________
Íbbagoggur er listamaðurinn Héðinn Finnsson. Hann er útskrifaður frá myndlistardeild Listaháskóla Íslands og hefur tekið þátt í nokkrum samsýningum, þar á meðal Hinni Konunglegu Teiknisýningu sem haldin var í Ekkisens í fyrra.

Nafnið Íbbagoggur notar Héðinn því það hljómar einsog nafn á fuglategund og Héðinn er forfallinn fuglanörd. Íbbagoggur hljómar líka dáldið einsog að ybba gogg og stundum ybbar Héðinn gogg. Ljótur á tánum er hans fyrsta einkasýning.

Opið verður á sýninguna sunnudag, miðvikudag, fimmtudag og föstudag frá kl. 15:00 – 18:00

 

 

 
WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com