Rag

i8 – Ragnar Kjartansson – FÍGÚRUR Í LANDSLAGI

31. janúar – 16. mars 2019
Opnun: Fimmtudaginn 31. janúar, kl 17 – 19

Fígúrur í hvítum sloppum ráfa um manngert landslag, staldra við og drepa tímann. Þau eru til okkar komin sem fulltrúar kaldrar rökhyggju, vísinda og framfara, mannkyninu til handa. Sem mynd á fleti höfum við séð þau áður, hvort heldur sem er í sovéskum lágmyndum eða veggmyndum Diego Rivera um Ford-verksmiðjuna. Nú erum við hins vegar komin á 21. öldina og maðurinn er ekki lengur réttmætur drottnari jarðarinnar heldur frekar plága sem stefnir hnettinum í glötun.

Í verki Ragnars Kjartanssonar Fígúrur í landslagi hyllir listamaðurinn mannsandann, þó með örlitlum votti af kaldhæðni, en hann getur lítið annað gert sem barn síns tíma. Hann nýtur góðs af framförunum því öðruvísi væri ekki hægt að gera þetta gríðarstóra verk í sjö hlutum, sem hver um sig er sólarhringur að lengd svo að það verður heil vika í spilun. Í þessu verki sjáum við sjö frummyndir hinnar ægifögru náttúru, ekki ósvipaðar þeim sem er að finna í skjámyndum í tölvu. Maðurinn stendur frammi fyrir þessu en aðhefst mest lítið, ráfar um eða hvílir sig. Við bíðum enn eftir hetjudáðinni sem aldrei verður drýgð. Áhorfandinn getur því mælt tímann og staðsett sig á ólíkum tíma dags. Eins verða örlög þessa verks þegar fram líða stundir, það verður spegill síns tíma því að ekkert er algerlega tímalaust.

Ragnar heyrði eitt sinn sögu sem sagði að kvikmyndaleikararnir Charlie Chaplin og Douglas Fairbanks hafi hist á tökustað hjá hinum síðarnefnda. Fairbanks sýndi Chaplin leikmynd sem var tilkomumikill kastali með vindubrú og spurði Chaplin hvaða senu hann vildi sjá í þessari leikmynd. Chaplin svaraði að gaman væri að sjá vindubrúna leggjast niður og flækinginn koma út úr kastalanum, taka inn mjólkurflöskuna og hleypa kettinum út. Ragnar tengir við þessa sögu. Í einu vetfangi var Chaplin búinn að afhelga táknmyndina um hið stórfenglega sem tengd er hetjudáð og sigrum.

Ragnar Kjartansson hefur áður reynt á þolrif sín og elju, reynt hverju hægt er að ná fram með endurtekningu og tíma og var snemma undir áhrifum listamanna eins og Marinu Abramovic og Chris Burden. Listamaðurinn er ekki lengur einn, hann á sér samverkamenn í endurtekningunni. Og í raun erum við öll samverkamenn með einhverjum hætti, endurtökum sömu athafnir dag hvern, skilum af okkur margra klukkustunda viðveru á vinnustað. Með líkum hætti er hægt að segja að þolgæði safnvarðarins sem gætir verka Ragnars sé síst minni en listamannsins, þar sem hann stendur dag eftir dag hreyfingarlítill í salnum og tryggir öryggi gesta og listaverka.

Manngerð náttúra í Fígúrum í landslagi er vísbending um samband listamannsins við náttúruna og nálgun hans. Í huga Ragnars er náttúran rómantísk táknmynd hins stórfenglega, náttúran er sögusvið. Hann er ekki að elta uppi staðreyndir um jarðhræringar og eldgos, heldur sögur um hetjur sem riðu um héruð eða grátleg örlög kotbónda. Um náttúruna ráfa fulltrúar menningarinnar líkt og til að fullvissa okkur um að vísindin efla alla dáð.

Um verkið

Fígúrur í landslagi er sett saman úr sjö skjám sem spila ólík, sólarhringslöng verk. Verkin eru öll án hljóðs, kvikmynduð á sviði með handmáluðum leikmyndum sem sýna frumgerðir landslags: skóg, eyðimörk, hrjóstrug fjöll, strönd, frumskóg, snævi þakin fjöll og engi. Allar senurnar verða sýndar samtímis og endurteknar í sífellu á meðan sýningunni stendur.

Ragnar segir svo frá verkinu: „Hér er engin eiginleg frásögn, ekkert gerist, við sjáum bara fólk í hvítum læknasloppum ganga um landslagið. Í verkinu Fígúrur í landslagi er ég að kinka kolli til hetjulegra veggmynda sem sýna táknmyndir vísinda og framþróunar, en geri það með níhílískri nálgun.“

Þar sem verkið er endurtekið í sífellu gerir það að verkum að sérhverja senu í Fígúrum í landslagi má nota til að mæla tímann – hreyfingar veranna á skjánum auðkenna ákveðnar stundir dagsins og ef verkin eru spiluð í röð þá mæla þau heila viku.

Ragnar Kjartansson

Í myndlist sinni leitar Ragnar Kjartansson fanga í ólíkum listformum. Að þykjast og sviðsetja eru veigamiklir þættir í listrænni tilraun hans til að miðla tilfinningum af einlægni og veita áhorfendum ósvikna upplifun. Verk hans eru gáskafull um leið og þau eru harmræn. Verk Ragnars hafa verið sýnd á nokkrum virtustu söfnum og hátíðum heims, svo semBarbican Art Gallery í London, Hirshhorn Museum and Sculpture Garden í Washington DC, Palais de Tokyo í París og New Museum í New York. Árið 2011 hlaut hann Malcom McLaren verðlaunin fyrir verk sitt Bliss sem flutt var á Performa 11 í New York. Tvisvar hafa verk Ragnars verið sýnd á Feneyjatvíæringnum; árið 2009 var hann fulltrúi Íslands og fjórum árum síðar vakti verk hans verðskuldaða athygli á aðalsýningu tvíæringsins. Yfirlitssýning á verkum Ragnars verður opnuð í Kunstmuseum Stuttgart í júlí 2019. Ragnar er fæddur í Reykjavík árið 1976. Hann stundaði nám við Listaháskóla Íslands og Konunglegu akademíuna í Stokkhólmi.

Fígúrur í landslagi er fjórða einkasýning Ragnars í i8.

i8 Gallery
Tryggvagata 16
101 Reykjavík
www.i8.is
info@i8.is


WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com