Fanasolir 300

Hvít sól opnar laugardaginn 03.11. í sýningarsal Skaftfells

Sýningin Hvít sól opnar laugardaginn 3. nóvember í sýningarsal Skaftfells. Þar mun listahópurinn IYFAC (Inspirational Young Female Artist Club) sýna innsetningu sem er sérstaklega unnin fyrir þessa sýningu. Síðustu mánuði hefur hópurinn rannsakað tímann sem hugtak og upplifun og samband manneskjunnar við sólina.

Við á norðurhveli jarðar búum við þær öfgar að sólin er ekki áreiðanleg klukka, hún færir okkur þó mjúklega inn í árstíðirnar með öfgakenndri birtu og myrkri. Ef við myndum smíða okkar eigin sólarklukku, hvernig liti hún út og hvað myndi hún mæla?

Tilvist okkar er samofin tímanum og að einhverju leyti er tímaskynjun innbyggð í vitund mannsins. Frá unga aldri er tímatal þjálfað og snemma gerð krafa um að læra á klukku en hversdagslegi veruleikinn okkar er sambland af huglægri og hlutlægri tímaskynjun. Sólin er lykilþáttur í þessu samhengi. Staða sólar á himni segir okkur hvað tímanum líður og mjög algeng er að til séu vörður í hverju bæjarplássi sem nýtist okkur sem náttúruleg sólarklukka.

Í aðdraganda sýningarinnar kom hópurinn i rannsóknarferð til Seyðisfjarðar í júlí. Tilgangurinn var að upplifa og kortleggja aðstæður um hásumar sem nýtast svo til samanburðar við gerð verksins sem verður til sýnis yfir hávetur. Þegar sólin skein sem hæst á lofti grannskoðuðu listamennirnir himininn, tóku viðtöl, unnu að mælingum og köfuðu ofan í orðaforða. Úr varð sólargjörningur sem fór fram undir kvöldhimni þar sem var gerð tilraun til að búa til nokkurs konar mannlega sólarklukku. Þátttakendur voru leiddir í öfugan sólarhring um hluta bæjarins meðan sólarfánum var flaggað í fánastangir og ómstríð lúðrasveit spilaði víðsvegar undir leiðsögn tónlistarmannsins Benna Hemm Hemm.

Sýningin Hvít sól opnar tæpu hálfu ári seinna við gjörólíkar aðstæður. Um þetta leyti er sólin of lágt á lofti til að skína á bæjarstæðið, sem gerir það illgerlegt að lesa í landið til að vita hvað klukkan slær. Hópurinn tók með sér varðveittar sólir frá hásumrinu inn í veturinn og notaði þær til smíða aðra sólarklukku. Öllu rýminu er umbreytt í stóra innsetningu þar sem sólarfánar í yfirstærð spila lykilhlutverk. Fánarnir hanga, hlið við hlið, úr loftinu og mynda einhvers konar sólargangveg fyrir áhorfendur. Samhliða má heyra hljóðmynd sem túlkar sólarhringinn, eftir tónskáldið Daníel Helgason. Með því að færast um rýmið býðst áhorfandanum að upplifa tímann með öðru móti en dagsdaglega. Hin raunverulega sól, lífsgjafi jarðar, er ekki lengur lykilþáttur heldur tilbúnar sólir sem bjóða upp á líkamlegri skynjun tímans á stað sem að þessi árstími býður ekki upp á.

IYFAC þjónar sem sem vinnustofa og umræðuvettvangur um sköpun fyrir meðlimi hópsins. Þær sem taka þátt í þessari sýningu eru Halla Birgisdóttir, Ragnheiður Harpu Leifsdóttir, Ragnheiður Maísól Sturludóttir og Sigrún Hlín Sigurðardóttir. IYFAC hefur unnið að þremur sýningum á síðustu árum: Ástarsameindir í SÍM salnum við Hafnarstræti árið 2016, Ég sagði það áður en þú gast sagt það í Gallerí Gróttu sýninguna haustið 2017 og nýjasta sýningin hópsins Allra veðra von opnaði í Hafnarborg í lok ágúst 2018.

Hvít sól stendur til 3. mars 2019.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com