Hverfisgallerí

Hverfisgallerý: Guðmundur Thoroddsen – sýningaropnun

GUÐMUNDUR THORODDSEN – HUNDAHOLT, HUNDAHÆÐIR

Sýningaropnun laugardaginn 6. júní kl. 16.00

Laugardaginn 6. júní næstkomandi opnar Guðmundur Thoroddsen aðra einkasýningu sína í Hverfisgalleríi og ber hún titilinn Hundaholt, Hundahæðir.

Starkarður Sigurðarson rithöfundur og sýningastjóri kemst svo að orði í sýningskrá: „Það er hægt að kaupa bjór sem heitir Hundur. Hann er í dós, með gulum miða, hann er lífrænn. Ef maður skoðar gula miðann betur sér maður að það sem maður hélt að væri mynstur eða einhverskonar grænar litakámur eru í raun litlir hundar að hjóla um. Brugghúsið segir ástæðuna fyrir þessu nafni vera að þeim finnist bjórinn deila eiginleikum sem við teljum hunda búa yfir: vinalegur, tryggur, smá fyndinn, kannski heimskur, en duglegur, félagslyndur – þau segja að það sé „hundur í þessum bjór“. En hvaðan komum við að þessum hlut? Ástæðan fyrir því að þessi bjór sé hundur, eða að þessi „Hundur“ sé bjór, er ekki alveg ljós.“

Verk Guðmundar eru húmorísk og sjálfrýnin og unnin í fjölbreytta en hefðbundna miðla, s.s. leir, vatnslit, teikningu og málverk.

Guðmundur Thoroddsen (1980) lauk BA námi í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2003 og útskrifaðist með MFA gráðu í myndlist frá School of Visual Arts í New York árið 2011. Hann hefur tekið þátt í fjölda sýninga bæði hér á landi og erlendis. Þar má nefna einkasýningarnar Tittlingaskítur í Hverfisgallerí 2017, Snib, Snab, Snubbur 2018/19 í Hafnarborg og Earth to Earth árið 2019 í Asya Geisberg Gallery í New York. Fjallað hefur verið um sýningar hans í ýmsum fjölmiðlum, s.s. Artforum, The New York Times, Time Out New York og Dazed Digital. Hann hefur hlotið styrki úr styrktarsjóðum Guðmundu Andrésdóttur, Myndstefs, KÍM og Evrópu unga fólksins, auk Listamannalauna. Guðmundur var tilnefndur til Íslensku Myndlistarverðlaunanna fyrir Snib, Snabb, Snubbur árið 2109. Guðmundur er á mála hjá Hverfisgalleríi og Asya Geisberg Gallery í New York.

Sýningin Hundaholt, Hundahæðir stendur til 1. ágúst 2020

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com