Hverfisgallerí

Hverfisgallerí – Valheimur – sýningaropnun 24. ágúst kl.16

Samsýningin Valheimur opnar í Hverfisgalleríi nk. laugardag 24. ágúst kl. 16.00 en sýningin leiðir saman tvo unga listamenn, þá Matthías Rúnar Sigurðarson (1988) og Sigurð Ámundason (1986) sem báðir sækja innblástur í epískar frásagnarhefðir, furðuheima og goðsagnir. Verk þeirra segja sögur og tendra ímyndunaraflið. Ríkulegur myndheimurinn sprettur meðal annars upp úr kvikmyndum, vísindaskáldskap, gróteskum miðalda- og endurreisnarmálverkum. Hvor á sinn hátt velta listamennirnir fram spurningum um ólgu lífsins, mannlega tilvist og andstæða krafta. Báðir vinna þeir í flæði, yfirleitt án fyrirmynda, og búa til atburðarásir þar sem hið yfirnáttúrulega og hið ógnarlega mætast. 

Matthías Rúnar Sigurðsson, Mímir, grágrýti, 28 x 28 x 35 cm, 2019. Ljósmynd: Vigfús Birgisson

Í sýningartexta segir að sögur hjálpi okkur að skilja. Í gegnum frásagnir getum við fært í orð það sem við skiljum ekki, sjáum ekki og botnum ekkert í. Sögur eru myndir. Samkomustaðir þvert á kynslóðir og tíma. Í frásögninni skerpast skilin milli raunveruleika og óraunveruleika og óhlutbundin fyrirbæri öðlast áþreifanleika. Við lærum að elska, fyrirgefa og skynja heiminn og okkur sjálf frá öðru sjónarhorni. Eignast og elta drauma. Í sögum erum við frjáls — frjáls til að velja og frjáls til að takast á við afleiðingarnar. Verkin á sýningunni skírskota í sígildar goðsögur um fórnina og ferðalagið: Gjörðir mannskepnunnar í þessum heimi sem henni hefur verið kastað inn í af óskiljanlegum ástæðum.

Sigurður Ámundason, Magi, trélitir og kúlupenni á pappír, 150 cm x 150 cm, 2019. Ljósmynd: Vigfús Birgisson

Sýningin stendur til 5. október

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com