Loji Höskuldsson Skólagarður Burlap Og Ull 63 X 93 Cm 2019

Hverfisgallerí: Loji Höskuldsson opnar sýninguna “Súper lókal” 30.nóvember

Laugardaginn 30. nóvember kl 16.00 opnar sýningin Súper lókal, fyrsta einkasýning Loja Höskuldssonar í Hverfisgalleríi en Loji gekk í raðir listamanna gallerísins fyrr á árinu. Í myndlist sinni kannar Loji, sem er einnig vel þekktur sem tónlistarmaður, bæði hefðbundnar og nýjar leiðir í útsaumi, tækni sem hann hefur þróað útfrá mömmu sinni sem er atvinnusaumakona og útsaumssnillingur. Í útsaumi Loja er viðfangsefnið fengið úr hversdagsleikanum; plöntur, ávextir og hlutir sem finnast á heimilum.

Í sýningarskrá segir að blómin sem fljóta upp úr Kókómjólkurfernunni hans Loja koma ekki út úr Kókómjólkurfernunni eins og hún er í dag, heldur Kókómjólkinni eins og hún var. Árið 2014 varð Klói, ekki í fyrsta skiptið, aftur nýr. Hárminni, massaðri, samtímalegri samkvæmt miðjum öðrum áratug aldarinnar. Við sjáum þessa hluti, þetta landslag sem við þekkjum, þegar það breytist, eldist, brotnar. Þannig fara verk Loja í margar áttir. Inn í þrá samtímans eftir því sem við þekkjum, þekktum. Þar sem við söknum saman Kókómjólkurinnar, Ópalsins, eða föttum saman að græna ruslatunnan, Freyjukaramellan, Hlöllabáta merkið, eru svona hlutir, íslenskir hlutir, hluti af íslenska vistkerfinu. Og þá kannski líka íslenskur hlutur sem við eigum einhvern tíma eftir að missa. Sígarettustubbar voru fleiri á götunni, Millet-úlpur líka, neftóbakshorn standa ekki sjálf. Og þetta landslag fortíðar-nútíðar speglast líka í handverkinu. Útsaumurinn er gamall og nýr, þjóðlegur og miðbæjarlegur. Kannski eru verkin að segja okkur að við búum í prísund hlutanna sem við neyðumst til að muna eftir og elska. Að við höfum ekki mikil völd yfir því úr hverju við búum til minningar. Að hvöt listamannsins, eins og hvers samborgara, ræðst meira af vistkerfinu sem við fæðumst inn í heldur en raunverulegri ást. Verkin hans Loja eru að verða þrívíðari og þróunin er augljós.

Loji Höskuldsson. Milletermi í polli. Burlap og ull. 38,5x38cm. 2019

Loji Höskuldsson (1987) útskrifaðist úr myndlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2010. Hann er í hljómsveitinni Bjartar nætur og hefur spilað með mörgum mismunandi hljómsveitum í gegnum tíðina, s.s. Sudden Weather Change 2006-2012, Wesen, I:B:M:, Prins Póló, Tilfinningar vina minna, og einnig undir eigin nafni. Hann hefur oftsinnis spilað á Iceland Airwaves og Sónar Reykjavík og einnig túrað um Evrópu og Ameríku. Þá hefur Loji skrifað tvö útvarpsleikrit: Hafið hefur 1000 andlit (2015) sem var flutt á Rás 1 árið 2015 og Eftir súpuna sérðu liti hafsins (2010) sem var flutt lifandi í Hafnarhúsinu 2010.

Loji Höskuldsson

Meðfram öllu þessu er Loji með rannsóknarverkefni í gangi um íslenska arkitektinn Sigvalda Thordarson þar sem hann tekur saman öll hans verk og fjallar um þau á Instagram-síðunni sinni. Loji hefur einnig tekið þátt í tveimur nútímadansverkum: Drop Dead Diet (2015) og A Guide to the Perfect Human (2016), þar sem hann bæði dansaði og samdi tónlistina.

Sýningin stendur til 8 febrúar 2020

Logi Höskuldsson. Skólagarður. Burlap og ull. 63x93cm. 2019
WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com