Hverfisgallerí

Hverfisgallerí: KRISTINN E. HRAFNSSON – DÆGURSVEIFLA

Sýningin opnaði 21.nóvember og stendur til 23.janúar 2021

„Þetta er bara ekki eins án þín“
„Þetta er bara ekki eins án þín,“ stendur aftan á póstkortinu sem leikur á milli fingra mér. Á framhliðinni er ljósmynd af fallandi trjábol, djúpt inni í skógi, einmitt á stað þar sem enginn heyrir til. Þessi ljósmynd er þess vegna alveg þögul en líka gulnuð og falleg eins og hlutir verða jafnan af því einu að eldast. Hvar þessi mynd hefur verið eða hvenær hún hefur verið hvar, það veit ég auðvitað ekki.

Sitt í hvoru lagi eru þau skyldari stillönsum en byggingum, sauðmeinlaus hugtök auðvitað: tími og rúm. Í minningunni var það einhvern veginn svona sem Berkley biskup útskýrði þau. Sé tíma og rúmi hins vegar blandað saman er fjandinn laus. Og ef við setjum þau niður í eina og sömu setninguna getur útkoman orðið eldfim blanda. Jafnvel „eitraður kokteill,“ gæti Berkley biskup hafa sagt, ef hann hefði verið gefinn fyrir vín.„Hvar og var? Þar og þá? Ójá, ójá, ójá …“ hefði hann þá raulað fyrir munni sér. En það var þó ekki fyrr en biskupinn hafði gert sér grein fyrir yfirþyrmandi margfeldi þessara tveggja einföldu breytna sem honum, þessum meistara óefnishyggjunnar, hætti að lítast á blikuna, því dagurinn líður, inn og út, út og inn, alltaf eins án þess að endurtaka sig í nokkurt skipti á sama hátt og austrið mætir vestrinu og suðrið norðrinu vandræðalaust í sífellu alveg án þess að nokkur viti hvar það gerist. Niðurstaða biskupsins hlýtur að hafa verið eitthvað á þessa leið: „Flókið dæmi, tími og rúm.“

Daginn inn – Daginn út, 2020, stál, detail.

Ofan á allt fattaði Berkley nú að hann hafði gleymt þriðju breytunni: fígúrunni, þessari sem gerir alla list fígúratífa og sumir kalla áhorfanda. Ég ímynda mér að þegar þarna var komið sögu hljóti biskupnum að hafa fallið allur ketill í eld því nú var jafnan orðin ennþá margbrotnari: Hvar, hvenær og hver? Ekki bara tími og rúm heldur líka „þú,“ þessi sem „þetta er bara alls ekki eins án“; „þú“ sem ert ofaní kaupið svona líka skratti óstöðug hugmynd. Eldfim blanda, eitraður kokteill? Eitthvað ófyrirsjáanlegt er það allavega enda er það í neistafluginu milli þessara þriggja eðlisþátta sem mig grunar að listaverk verði til og hverfi svo reyndar aftur. Berkley biskup var auðvitað lítið að spá í slíkt. Hann var heimspekingur, ekki listfræðingur – sem betur fer eða því miður, eftir því hvernig á það er litið.

Þegar ég sný þessu póstkorti milli fingra mér og horfi á myndina af trénu sem er að falla hljóðlaust í skóginum er ég lúmskt þakklátur fyrir að vera ekki heimspekingur heldur bara fígúra í fígúratífum listaverkum og eiginlega enn þakklátari fyrir þá staðreynd að markmið listarinnar er hvorki sannleikur né skilningur heldur bara örlítil undrun. Undrun og stöðug óvissa auðvitað – eins og bent hefur verið á – en samt alltaf líka í huga fígúrunnar: örlítil undrun.

Þess vegna er best að ljúka þessu svona, því lokaorð allra texta hljóta að vera þau sömu. Þau birtast í svörtu letri aftan við öftustu setninguna andartaki eftir að lesandinn lítur upp af blaðsíðunni: „Í alvöru, þetta er bara ekki eins án þín.“
Ragnar Helgi Ólafsson, 2020

Kristinn E. Hrafnsson

Kristinn E. Hrafnsson er fæddur árið 1960 á Ólafsfirði. Hann stundaði nám í Myndlistarskólanum á Akureyri og Myndlista- og handíðaskóla Íslands og lauk framhaldsnámi í Akademie der Bildenden Künste í München í Þýskalandi árið 1990. Kristinn býr og starfar í Reykjavík.

Í verkum Kristins má greina heimspekilegan þráð og vangaveltur um rúm og tíma, hreyfingu, afstæði og tungumál. List hans fjallar um manninn og skilning hans á umhverfi sínu og hvernig náttúran mótar sýn hans og samskipti. Samband listaverksins við vettvanginn er mikilvægur þáttur í verkum hans, en á ferli sínum hefur Kristinn gert fjölda umhverfisverka, ýmist einn eða í samvinnu með arkitektum. Verk Kristins hafa verið sýnd á Íslandi og víða um Evrópu og eru vek hans að finna í öllum helst listasöfnum á Íslandi sem og í opinberum söfnum og einkasöfnum.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com