Z9A4714

Hverfisgallerí : Jeanine Cohen – The Space Between – opnun 17. mars

Þriðja einkasýning belgíska listamannsins Jeanine Cohen hér á landi opnar í Hverfisgalleríi við Hverfisgötu næstkomandi föstudag klukkan 17.00. Á sýningunni sem ber titilinn The Space Between gefur að líta verk úr tveimur nýjum seríum Cohen, Diagonal og Angle sem voru sérstaklega unnar fyrir sýninguna og bera þau öll sérkenni listamannsins sem undanfarin ár hefur unnið geómetrísk, þrívíð verk, sem eru undir miklum áhrifum af arkitektúr og rýna í samspil lita, víddar, tíma og forms.

Jeanine Cohen skilgreinir sig sem málara og hverfast verk hennar um marglaga ramma sem eru unnir úr viðarplötum sem eru mismunandi að lögun og stærð og eru fletir að hluta til málaðir. Bakhliðar myndanna eru málaðar sérstökum neónlitum sem endurvarpa rafmagnaðri birtu á vegginn fyrir aftan og gera þannig mörk málverskins óræð í tíma og rúmi. Baklitirnir í verkum Cohen eru afrakstur áralangrar rannsóknarvinnu listamannsins á tengslum lita og birtu og undirstrika áherslu hennar á málverkið sem listform. Litirnir eru áleitnir, lúmskir og síbreytilegir eftir birtustiginu sem leikur um verkin og aðstæðum umhverfisins í kring. Titill sýningarinnar vísar þannig í ásana tvo, tíma og rúm, sem er á milli áhorfandans og verksins á veggnum. Áhorfandinn upplifir þannig list Cohens þar sem hann staðsetur sig á þessum ásum.

Í málverkaseríunni Diagonal eru verkin byggð upp af marglaga viðarbútum sem skerast á mismunandi stöðum og eru studdar af ferhyrndum ramma sem málaðir eru í grænum og rauðum litum sem skírskota til íslenskrar náttúru og draga áhorfandann að sér. Í seríunni Angles er áherslan á tómarúmið umhverfis verkið sem byggir á tveimur svörtum þríhyrningum. Veggurinn leikur stórt hlutverk í öllum verkunum og geta hvorki listaverkin né veggirnir án hvors annars verið. Útkoman er arkitekúr lita, ljóss og skuggamynda.

Jeanine Cohen hélt síðast einkasýninguna Somewhere Between í Hverfisgalleríi sumarið 2013 og þá hélt hún sýningu í i8 árið 2004. Hún hefur ferðast mikið um landið og sótt innblástur í verk sín hér á landi. Verk Jeanine Cohen hafa verið sýnd í söfnum og galleríum víða í Evrópu, bæði á einkasýningum og samsýningum svo sem í Frakklandi, Þýskalandi, Portúgal, Póllandi, Belgíu og Sviss. Þá hefur hún sýnt hér á landi, í Ísrael og Bandaríkjunum. Verk hennar eru í eigu stofnana, fyrirtækja og einkaaðila víða um heim auk þess hún hefur gert staðbundin verk fyrir ýmis söfn, stofnanir og einkaaðila.

Meðfylgjandi eru ljósmynd af verki: Angles N°7 (2017). Stærð: 105 x 95,5 x 5 cm. Miðill: Akrýl máling og neonlitir á við. Ljósmynd: Vigfús Birgisson.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com