Hverfisgallerí

Hverfisgallerí: HARPA ÁRNADÓTTIR – Djúpalogn / Deep Calm – 19. október kl 17.00

Harpa Árnadóttir opnar þriðju einkasýningu sína í Hverfisgalleríi nk. laugardag og ber sýningin titilinn Djúpalogn. Í Djúpalogni leggur Harpa Árnadóttir af stað í ferð inn í innra landslag, þar sem fjörðurinn, sköpunargáfan og skrifin bregðast hvert við öðru. Teikningin og vatnsliturinn fanga andrúmsloft, veðurfarsbreytingar, birtu og logn fjarðarins. Hið stóra í hinu smáa og hið smáa í hinu stóra. Minningin um staði er eitt af leiðarstefjum hennar, bæði áþreifanleg og gagnsæ.

Verk Hörpu fljóta á mörkum óhlutbundins og hlutbundins myndmáls, þau snúast um að fanga tilbrigði náttúru og huga í teikningu og málverki. Sýningin samanstendur af blýantsteikningum og málverkum; litlum sem stórum, unnum með hafkalki, litadufti, vatnslitum, pappír og striga. „Ég teikna og mála mig inn í fjörðinn og mála fjörðinn með firðinum sjálfum,“ segir Harpa og vísar í þá aðferð sína um árabil að nota hafkalk úr Arnarfirði í verk sín.

Harpa Árnadóttir, Frá Bergsstöðum á Bíldudal í Arnarfirði, I. Vantslitir og hafkalk á hörstriga, 50 x 60 cm, 2019. Ljósmynd: Vigfús Birgisson

Það er sjálfsævisögulegur tónn í sýningunni sem mótast af hugleiðingum um bernskuna. Við undirbúning sýningarinnar í sumar uppgötvaði Harpa vatnslitamynd eftir Ásgrím Jónsson (1876-1958), sem henni var sýnd í húsi ömmu hennar og afa sem hún fæddist í. Myndin var máluð á Bíldudal, þegar hann bjó og starfaði í þorpinu ungur maður í upphafi ferils síns. „Þessi tilviljun snerti streng í hjarta mínu, nokkurs konar handaband yfir heila öld.“ Harpa fékk málverkið lánað og það er hluti sýningarinnar. Þá fylgir einnig bókverk sem varð til á Bíldudal í sumar, með örsögum og teikningum úr Arnarfirði.

Harpa Árnadóttir (1965) er fædd á Bíldudal en ólst upp í Ólafsvík á Snæfellsnesi. Hún sneri sér að myndlist eftir að hafa lokið BA gráðu í sögu og bókmenntum við Háskóla Íslands. Harpa nam við Myndlista- og Handíðaskólann og lagði síðan stund á framhaldsnám við Konsthogskolan Valand í Gautaborg. Verk Hörpu hafa verið keypt og sýnd af söfnum víða í Evrópu og þau birtust á fyrsta tvíæringnum í Gautaborg og á Momentum, sjötta norræna tvíæringnum í samtímalist í Moss í Noregi. Sumarið 2011 gaf bókaútgáfan Crymogea út safn texta og vatnslitaverka eftir Hörpu undir heitinu Júní / June. Hvítu sprunguverk Hörpu voru valin á sýninguna Den Monokroma synfonien sem haldin var í Listasafninu Artipelag í Stokkhólmi 2015-2016.

Sýningin Djúpalogn stendur frá 19. október til 23. nóvember.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com