Mjög Snemma Sumars

Hverfisgallerí: Abyss – Hildur Bjarnadóttir

Næstkomandi laugardag, kvenréttindadaginn 19. júní kl. 16.00, opnar Hildur Bjarnadóttir þriðju einkasýningu sína í Hverfisgalleríi sem ber yfirskriftina Abyss. Sýningin stendur til 7. ágúst

Þegar Hildur Bjarnadóttir settist að í óræktuðu votlendinu í Þúfugörðum í Flóa fyrir 5 árum síðan var umlykjandi villigróður og marflöt víðáttan til lands og sjávar efniviðurinn í list hennar. Það eru efnaskipti birtunnar, moldarinnar og vatnsins sem birtast ljóslifandi í verkum sem hún kallar „ofin málverk“: vefnaður úr ull og hör þar sem safi jarðarinnar er uppspretta litarins en formið mótast af ströngu neti vefstólsins í handverki sem byggir á aldagömlum hefðum. Hefðin er þó ekki það eina sem Hildur vildi sýna okkur með þessum ströngu forsendum, heldur verður hún tilefni til stefnumóts við samtímann þar sem náttúran og menningin mætast í óvæntri samræðu við stafræna og netvædda myndmenningu samtímans.

Fyrir nokkrum misserum urðu Hildur og sambýlismaður hennar þeirrar gæfu aðnjótandi að eignast tvíburasysturnar Urði og Sölku. Lífið í Flóanum snerist ekki lengur um samtalið við litbrigði jarðarinnar heldur samfellda og krefjandi umhyggju þessara nýbúa í Þúfugörðum, sem kölluðu miskunnarlaust á brjóstagjöf, líkamlega snertingu, nærveru og samtal. En ekki bara það, heldur umturnuðu vaktaskipti nýburanna á milli svefns og vöku allri hrynjandi tímans í því sem annars virtist tímalaus tilvera á milli dags og nætur í sveitasælunni í Flóanum. Ný vaktaskipti  og verkaskipti urðu óumflýjanleg, og til að einfalda hlutina setti Hildur upp nýtt mynstur í dagbækur sínar: svefntímar Urðar og Sölku urðu að exelskjali, og þegar Hildur fann smám saman stundir til að setjast við vefstólinn þá áttu litbrigði jarðarinnar ekki lengur hug hennar með sama hætti og áður, heldur tíminn þegar þær Urður og Salka áttu sér sameiginlegar eða ósamstæðar hvíldarstundir.

Verk Hildar eru „málverk“ þar sem léreftið er ekki falin undirstaða litarins, heldur þéttriðið net úr hör og ullarþráðum, gegnsýrðum af lit sem hefur verið hreinsaður af allri vísun í annað en efniskennd sjálfs vefsins í þessu neti sem kallast á við pixlanet skjámynda samtímans með ögrandi hætti. Þannig hafa verk Hildar opnað fyrir nýjan skilning á málverkinu sem miðill hugar og handa, menningar og náttúru.

Viðfangsefni Hildar Bjarnadóttur í myndlistinni eru heimkynni, vistfræði, staður og samlífi með dýrum og plöntum á litlum jarðskika í Flóahrepp þar sem hún býr og starfar. Plönturnar á jarðskikanum gegna hlutverki upptökutækis sem tekur inn upplýsingar frá þeim vistfræðilegu og samfélagslegu kerfum sem plönturnar tilheyra í gegnum andrúmsloftið og jarðveginn. Hildur gerir þessar upplýsingar sýnilegar með því að vinna liti úr plöntunum sem hún notar til að lita ullar þráð og silki efni til þess að búa til ofin málverk og innsetningar úr silki. Verk hennar draga fram margvíslegar upplýsingar, upplifanir, sjónarhorn og einkenni staðarins, þau eru sjálfstæð og huglæg kerfi sem varpa ljósi á margbrotið net samlífis og heimkynna.

Hildur Bjarnadóttir (1969) býr og starfar í Reykjavík og í Flóahrepp. Hún lauk námi frá textíldeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1992 og útskrifaðist árið 1997 með MFA próf frá Nýlistadeild Pratt Institute í Brooklyn, New York. Árið 2009 lauk hún diplómanámi í kennslufræði við Listaháskóla Íslands. Haustið 2013 hóf hún doktors nám í myndlist við Listaháskólann í Bergen sem hún lauk í byrjun árs 2017. Hildur hefur haldið fjölda einkasýninga víða um heim, þar má nefna; 2017; Cohabitation í Trondelag Senter for Samtidskunst í Trondheim í Noregi, 2016; Vistkerfi Lita í Vestursal Kjarvalsstaða, 2016/17; Ígrundað handahóf í Hverfisgalleríi, 2015; Colors of belonging í Bergen Kjøtt í Noregi, 2014; Subjective systems í Kunstnerforbundet í Oslo og Kortlanging lands í Hverfisgallerí og 2013; Flóra Illgresis í Hallgrímskirkju.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com