Listasafn Reykjavíkur

Hulda Rós Guðnadóttir hlýtur Guðmunduverðlaunin 2019

Handhafi Guðmunduverðlaunanna í ár er Hulda Rós Guðnadóttir. Þetta var tilkynnt við opnun nýrrar sýningar á verkum Errós, Heimsferð Maós í Listasafni Reykjavíkur – Hafnarhúsi nú síðdegis.

Hulda Rós er myndlistarmaður fædd árið 1973. Hulda Rós er með meistaragráðu í gagnvirkri hönnun frá Middlesex háskólanum í London í Bretlandi, og BA gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands og BA gráðu í mannfræði frá Háskóla Íslands. Fyrir utan það að leggja stund á myndlist hefur hún gert kvikmyndir og hlotið fjölda viðurkenninga fyrir.

Í verkum sínum hefur Hulda Rós beint sjónum að samfélagslegum viðfangsefnum og til dæmis fjallað um það hvernig afkoma okkar er háð sjávarútvegi og það hvernig virðiskeðja vinnuafls og myndunar auðs riðlast í hnattvæddu samfélagi nútímans. Hún hefur notað ýmsa miðla til að bregða ljósi á hulda hlekki í kapítalískri virðiskeðju meðal annars í verkinu Löndun sem er að mestu tekið upp hér við Reykjavíkurhöfn. Það er því viðeigandi að veita Huldu Rós viðurkenningu Guðmundusjóðs nú á alþjóðlegum baráttudegi verkafólks 1. maí.

Hulda Rós er hluti hóps sem bar sigur úr býtum í samkeppni um útilistaverk á vegum Faxaflóahafna árið 2017 – verkið heitir Tíðir og verður sett upp í nágrenni Slippsins í Reykjavík. Hún hefur hlotið fjölda viðurkenninga hér heima og erlendis fyrir heimildarmyndir sínar, Keep Frozen og Kjötborg.

Hulda Rós hefur sýnt kvikmyndaverk sín, gjörninga og innsetningar hér heima og erlendis frá árinu 2004, meðal annars var hún með sýningu í D-salnum hér í Listasafni Reykjavíkur árið 2011. Þá hefur hún tekið þátt í fjölda hópsýninga og á næsta ári verður einkasýning á verkum hennar í Listasafni Reykjavíkur í A-sal Hafnarhúss.

Styrkur úr listasjóði Guðmundu S. Kristinsdóttur er veittur framúrskarandi listakonu ár hvert og er honum ætlað að efla og styrkja listsköpun kvenna. Erró stofnaði Guðmunduverðlaunin til minningar um móðursystur sína, Guðmundu S. Kristinsdóttur frá Miðengi. Erró vill leggja sitt af mörkum til framþróunar íslenskrar myndlistar og eitt af því sem hann hefur gert er að stofna listasjóð Guðmundu. Peningaupphæðin, ein milljón króna, er nú ein hæsta viðurkenning sem veitt er á sviði myndlistar á Íslandi.

Viðurkenning úr Listasjóði Guðmundu er nú ein hæsta viðurkenning sem veitt er á sviði myndlistar á Íslandi. Þetta er í 20. sinn sem styrkurinn er veittur.

Þær listakonur sem áður hafa hlotið styrk úr sjóðnum eru Ásdís Sif Gunnarsdóttir, Dodda Maggý, Elín Hansdóttir, Finna Birna Steinsson, Gabríela Friðriksdóttir, Guðný Rós Ingimarsdóttir, Guðrún Vera Hjartardóttir, Hekla Dögg Jónsdóttir, Hildigunnur Birgisdóttir, Hulda Stefánsdóttir, Katrín Sigurðardóttir, Margrét H. Blöndal, Ólöf Nordal, Ósk Vilhjálmsdóttir, Sara Björnsdóttir, Sara Riel, Sirra Sigrún Sigurðardóttir, Þóra Þórisdóttir og Þórdís Aðalsteinsdóttir.

Stjórn sjóðsins skipa safnstjórar Listasafns Reykjavíkur – Ólöf K. Sigurðardóttir, formaður, Listasafns Íslands – Harpa Þórsdóttir og Listasafnsins á Akureyri – Hlynur Hallsson.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com