14910462 1281639448558830 4740745043362487855 N

Hulda Hákon – Hér fer allt í hringi

Velkomin á opnun sýningar Huldu Hákon; Hér fer allt í hringi, föstudaginn 4. nóvember á milli klukkan 17 & 19 í Tveimur hröfnum listhúsi – Baldursgötu 12 – gegnt Þremur frökkum veitingastað.

HÉR FER ALLT Í HRINGI

Ég vinn á yfirborðinu.
Stundum, þegar vel tekst til, næ ég að kafa undir.

Það er vatn fyrir norðan sem heitir Hlíðarvatn.
Vatnið stendur við hlíð. Hlíðin heitir Vatnshlíð.

Hér fer allt í hringi.

Farfuglarnir koma og fara.
Og við höldum áfram að horfa á sólarlagið.

Stundum eru húsin illa byggð og þá bendir hver á annan.

HULDA HÁKON (f. 1956) er stúdent frá Menntaskólanum við Tjörnina. Hún nam myndlist við Nýlistadeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1977–81 og við School of Visual Arts, New York 1983.

Fyrsta sýning sem Hulda tók þátt í hér á landi var Gullströndin andar 1983. Fyrstu einkasýninguna hélt hún í Visual Arts Gallery, New York, 1983.

Hún hefur haldið fjölmargar einkasýningar og tekið þátt í samsýningum víða um heim.

Hulda var fulltrúi Íslands á Sydney tvíæringnum 1990 og ARS 95, 1995 .

Ferill Huldu er lengri og glæsilegri en svo að honum verði gerði skil á þessum vettvangi.
Sé stiklað á stóru; lágmyndir eftir Huldu eru í eigu helstu listasafna á Íslandi og nokkurra erlendra safna. Má þar nefna Kiasma-safnið í Finnlandi og Malmö Museum í Svíþjóð.

Verk hennar er einnig að finna í opinberu rými á Íslandi, í Finnlandi, Noregi og New York.

Sérstakan kafla um Huldu og verk hennar er að finna í þýska lexikoninu – Kunstler – sem er fræðirit um alþjóðlega myndlist.

Lágmyndir Huldu eru í einkaeigu á Íslandi, Grænlandi, í Danmörku, Svíþjóð, Noregi, Finnlandi, Eistlandi, Þýskalandi, Hollandi, Sviss, Spáni, Bandaríkjunum, Bretlandi, Kína , Indlandi og Ástralíu.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com