Untitled

HUGFORM – MÁLUÐ OG KLIPPT

Messíana Tómasdóttir opnar sýninguna Hugform – máluð og klippt fimmtudaginn 6. október kl. 17:00 í Gallerí Gróttu, Seltjarnarnesi. Verkin, sem unnin eru á síðastliðnum tveimur árum, byggjast á klippimyndatækni þar sem form og grunnar eru máluð með akríllitum á pappír. Form, liti og myndbyggingu sækir Messíana í innri veruleika og hugræna lifun. Myndir hennar eru ekki aðeins leikur með skæri og form heldur bera í sér andlegan boðskap og viðvist sem snerta áhorfandann á heilandi hátt.

Sýningarstjóri er dóttir Messíönu, listfræðingurinn Ásdís Ólafsdóttir.

Messíana stundaði nám í myndlist, leikmynda- og búningahönnun og brúðuleikhúsi hér á Íslandi, í Danmörku og í  Frakklandi. Hún er höfundur að leikmyndum og búningum um 80 leiksýninga, ópera og sjónvarpsverka hér á landi og erlendis. Hún hefur haldið 15 myndlistarsýningar auk samsýninga og haldið námskeið og fyrirlestra um litafræði og brúðuleikhús hér heima, á Norðurlöndunum og víðar. Messíana hefur notið fjölda starfs- náms- og ferðastyrkja og var Borgarlistamaður Reykjavíkur 1983, Bæjarlistamaður Seltjarnarness 2003 og Heiðurslistamaður Félags leikmynda- og búningahöfunda 2014.

Sýningin stendur til 4. nóvember og er opin mán-fim 10-19, fös 10-17 og lau 14-17.
Við opnun sýningarinnar og alla laugardaga kl. 14 sýnir Messíana leikbrúðuverk, samtal sitt við bláu stúlkuna, en Messíana fullgerði verk um hana sem Borgarlistamaður.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com