Rymi3 162502

Hönnunarmiðstöð Íslands leitar að aðilum til að reka sérverslun með íslenska hönnun á fyrstu hæð Aðalstrætis 2.

Hönnunarmiðstöð Íslands flutti í Aðalstræti 2 í ágúst. Unnið er að því að skapa húsinu nýja sérstöðu með líflegri starfsemi á sviði hönnunar og arkitektúrs.

Við leitum að góðum leigendum og áhugaverðum sambýlingum. Aðilar sem vinna á sviði hönnunar og arkitektúrs koma helst til greina, enda hugmyndin að starfsemi leigjenda falli vel að starfsemi miðstöðvarinnar.
Ert þú með hugmynd að sérverslun með íslenska hönnun?

Hönnunarmiðstöð Íslands leitar að aðilum með sterka sýn, þekkingu og ástríðu fyrir íslenskri hönnun og reynslu af viðskiptum og rekstri, til að reka sérverslun með íslenska hönnun á fyrstu hæð Aðalstrætis 2.

Rekstur verslunar er hluti af markmiðum Hönnunarmiðstöðvar um að skapa húsinu nýja sérstöðu með líflegri starfsemi sem höfðar til borgarbúa, gesta hennar en ekki síst fagfólks og áhugafólks um hönnun.

Verkefnið er sérlega spennandi og við leitum að aðila eða aðilum með sterka hugmynd (concept), helst á breiðu sviði hönnunar, sem auk þess getur sýnt fram á rekstrarlegan trúverðugleika.

Reksturinn verður að vera sjálfstæður og alfarið á ábyrgð rekstraraðila þó gert sé ráð fyrir að samstarf og nálægð við Hönnunarmiðstöð verði mikilvægur fyrir báða aðila.

Rýmið sem um ræðir er á fyrstu hæð hússins, þar sem Reykjavíkurborg rekur nú Upplýsingamiðstöð ferðamála sem flytur úr húsinu um áramót. Auðvelt er að kynna sér stærð rýmisins með því að skoða það og afla gagna á Borgarvefsjá en rekstrarhugmyndin getur haft áhrif á fermetratölu leigusamningsins sem er þess vegna ekki gefin upp hér.

Áhugasamir sendi póst á halla@honnunarmidstod.is, með lágmarksupplýsingum um hugmynd og reynslu.

Öllum verður svarað í pósti eða með símtali.

Valdir verða úr áhugasamir aðilar til samtals, við framkvæmdastjórn Hönnunarmiðstöðvar, en þar mun spennandi hugmynd um nálgun í bland við rekstrarlegan trúverðugleika vega mest.

Framkvæmdastjórn sitja Hörður Lárusson FÍT og formaður stjórnar, Kristján Örn Kristjánsson AÍ, varaformaður og Halla Helgadóttir framkvæmdarstjóri.

Fyllsta trúnaðar verður gætt.
Glerrými á palli

Rýmið hentar sem skrifstofa fyrir 3-4 starfsmenn eða fyrir smáan rekstur á sviði hönnunar sem þarf að vera aðgengilegur fyrir gesti og gangandi. Rýmið er á pallinum á annarri hæð með glervegg út á pallinn, sem hægt er að hafa opinn eða byrgja eftir því sem hentar.

Semja má um aðgang að sameiginlegum fundarherbergjum, kaffi og góðri kaffistofu, þrifum og öryggisgæslu. Lifandi starfsumhverfi og sambýli við Hönnunarmiðstöð fylgir.

Áhugasamir sendi fyrirspurn í info@honnunarmidstod.is, fyrirspurnum verður svarað fljótt.
Friðsælt rými á 3. hæð

Rýmið hentar sem skrifstofa fyrir 3-4 starfsmenn eða fyrir smáan rekstur á sviði hönnunar. Rýmið er inn af kaffistofu á 3. hæð hússins, undir súð en notarlegt og friðsælt.

Semja má um aðgang að sameiginlegu fundarherbergi, kaffi og góðri kaffistofu, þrifum og öryggisgæslu. Lifandi starfsumhverfi og sambýli við Hönnunarmiðstöð fylgir.

Áhugasamir sendi fyrirspurn í info@honnunarmidstod.is, fyrirspurnum verður svarað fljótt.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com