Aníta Hirlekar

Hönnuðarspjall með Anítu Hirlekar

Hönnuðarspjall með Anítu Hirlekar verður í Listasafninu á Akureyri laugardaginn 30. júní kl. 15. Aðgangur ókeypis.

Hlynur Hallsson sýningarstjóri og safnstjóri Listasafnsins ræðir við Anítu um sýningu hennar í Listasafninu, feril og framtíð. Gestum er velkomið að taka þátt í samtalinu og hér er gott tækifæri til að kynnast hönnun Anítu betur.
Í hugmyndafræði Anítu Hirlekar sameinast handverk og tískuvitund með einkennandi hætti. Listrænar litasamsetningar og handbróderaður stíll eru áberandi þættir í hönnun hennar. 
Aníta er fædd á Akureyri árið 1986. Hún lauk BA námi í fatahönnun með áherslu á textílprent 2012 og MA gráðu í textílhönnun fyrir tískufatnað frá Central Saint Martins í London 2014. Hún hefur tekið þátt í fjölda sýninga bæði á Íslandi og erlendis, m.a. á tískuvikunni í London og París, Espoo Museum of Modern Art í Finnlandi og í Hönnunarsafni Íslands. Aníta var tilnefnd til Menningarverðlauna DV 2015 og hönnun hennar var í forvali fyrir Hönnunarverðlaun Íslands 2015. Hún hlaut Fashion Special Prize í International Talent Support hönnunarkeppninni á Ítalíu 2014.
Sýning Anítu Hirlekar í Listasafninu á Akureyri stendur til 16. september 2018.
WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com