Hulda12

Hjartanlega velkomin(n) á opnun sýningu Huldu Vilhjálmsdóttur – VÍÐÁTTA – fimmtudaginn 15. ágúst kl. 17.00

Hulda Vilhjálmsdóttir er einna þekktust fyrir málverk sín þar sem viðfangsefnin eru náttúran, manneskjan og tilfinningar. Hún hefur ávallt teiknað mikið, gert skúlptúra, innsetningar og gjörninga og einnig unnið með leir. Á sýningu sinni Víðátta í Gallerí Gróttu vinnur Hulda með náttúruna þar sem verndun hálendis Íslands er megin viðfangsefnið.

Hulda lauk BA prófi í málun frá Listaháskóla Íslands árið 2000 og lærði leirlist í Myndlistaskólanum í Reykjavík 2006-2008. Hulda hefur haldið á þriðja tug einkasýninga frá því að hún lauk námi, auk þess sem hún hefur tekið þátt í fjölmörgum samsýningum heima og erlendis.

Hulda hefur víða komið við á myndlistarferlinum. Hún hefur stofnað fjögur gallerí, gefið út ljóða- og teikningabækur og árið 2017 kom út bókin Valbrá með listaverkum hennar.  Listaverk Huldu voru í forvali vegna Carnegie Art verðlaunanna árið 2007. Listasafn Íslands, fjölmörg fyrirtæki, stofnanir og einstaklingar eiga listaverk eftir hana. 

Pabbi hafði stórar hendur.  Þær unnu og þær leiddu mig.

Þær bentu mér á fjöllin.  Þær voru bæði stórar, sterkar og hlýjar.

Þegar hann var að hvíla sig í hægindastólnum heima, þá setti hann hendurnar á hné sér,

eins og hann væri að sýna heiminum þær.

Stundum flettu þær bók.  Stórri bók um löndin í heiminum.  Það voru myndir af demöntum

og gimsteinum í bókinni og hvar væri hægt að finna þá. 

Hann ferðaðist um heiminn í hægindastólnum heima.

Velkomin(n) á sýningu Huldu í Gallerí Gróttu, sýningarsal á Bókasafni Seltjarnarness 2. hæð á Eiðistorgi.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com