Dulur2

Hjartanlega velkomin(n) á opnun sýningar Önnu Þóru Karlsdóttur – DULUR – fimmtudaginn 6. júní kl. 17.00

Um sýninguna:

Ullin hefur frá upphafi ferils Önnu Þóru verið það efni sem hún hefur notað við listsköpun sína. Ullin gefur möguleika á að vinna bæði tvívíð og þrívíð verk. Fyrst gerði hún ofin verk en síðustu þrjá áratugi eingöngu flókaverk. Sameiginlegt með Dulum og fyrri verkum er gagnsæi litanna þar sem náttúruleg ull og lituð ull er lögð til skiptis. Með því að leggja lag ofan á lag blandast litirnir líkt og í málverki. Dulurnar eru hins vegar gerðar úr togi ullarinnar þannig að skín í gegn. Dulunum er síðan stillt saman svo að úr verður heild. Því má segja að flest fyrri verkin hafi verið jarðbundnari og áþreifanlegri. Dulur vísa því fremur til hins loftkennda og ósnertanlega – hins andlega og dulda.

Ferill listamannsins:

Frá því hún lauk námi í Myndlista- og handíðaskóla Íslands og Konstfack í Stokkhólmi hefur Anna Þóra unnið að myndlist. Hún hefur fengist við myndlistakennslu á öllum skólastigum. Um tólf ára skeið tók hún þátt í rekstri listmunaverslunarinnar Kirsuberjatréð. Hún hefur tekið þátt í allt að fimmtíu samsýningum síðan 1975. Sýningin Dulur er 10. einkasýning hennar. Anna Þóra hefur tvisvar fengið starfslaun úr Launasjóði myndlistamanna. Í fyrra skiptið í sex mánuði og í seinna skiptið í tvö ár. Hún hefur einnig dvalið á vinnustofum erlendis við listsköpun sína. Listasafn Íslands og Listasafn Reykjavíkur eiga bæði verk eftir Önnu Þóru.

Velkomin(n) á sýningu Önnu Þóru í Gallerí Gróttu, sýningarsal á Bókasafni Seltjarnarness 2. hæð á Eiðistorgi.

ARN
WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com