Hildur Vefsidumynd 05

Hildur Björnsdóttir sýnir ljósmyndir og innsetningar frá ferðum sínum um Asíu

Borgarbókasafnið | Menningarhús Gerðubergi
17. mars – 4. júní 2018

Verið hjartanlega velkomin á opnun sýningar Hildar Björnsdóttur, laugardaginn 17. mars kl. 14.

Hvernig upplifum við menningu sem er okkur fjarlæg og framandi? Hvernig getum við stuðlað að gagnkvæmri virðingu og skilningi á milli ólíkra menningarheima? Hildur Björnsdóttir myndlistarkona hefur á undanförnum árum ferðast víða um Asíu og kynnst fjölbreyttri menningu, trúarbrögðum og lífsháttum í Tíbet, Víetnam, Kambódíu, Nepal, Indlandi og Tælandi. Hún safnar í sarpinn með því að taka ljósmyndir, skrifa og skissa í dagbókina sína. Á sýningunni Fjölþing er að finna listræna úrvinnslu á þeirri nýju sýn og þekkingu sem Hildur hefur öðlast með því að komast í kynni við fólk á öllum aldri, búa á meðal þess og heimsækja staði sem margir bera merki um mannlega þjáningu og sögulega atburði. Sýningin vekur upp margar spurningar og býður áhorfandanum í heimspekilegt ferðalag á framandi slóðir.

Heimsóknin í S-21 fangabúðirnar í Kambódíu er uppspretta verka þar sem Hildur miðlar þeirri sterku tilfinningu, sem hún upplifði á staðnum, með því að flétta myndir af fórnarlömbum inn í umhverfið sem við blasir í dag. Ljósmyndirnar er prentaðar beint á burstaðar álplötur og hið fallega samspil dagsbirtu og ljóskastara skapar áhrifaríka þrívíddartilfinningu. Hildur vinnur jafnframt með innsetningar þar sem hún teflir saman teikningum, letri, landakortum og veraldlegum hlutum sem hún sankaði að sér á ferðum sínum.

Við opnun sýningarinnar laugardaginn 17. mars spjallar Hildur við gesti um tildrög verka sinna og gefur þeim dýpri innsýn í hvernig hún vinnur úr upplifun og tilfinningum sínum gagnvart viðfangsefninu með miðlum listarinnar.

Frekari upplýsingar.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com