Vinningshafar Vefupplausn

Hildur Bjarnadóttir hlýtur menningarverðlaun DV í flokki myndlistar

Menningarverðlaun DV afhent

Fullt hús hjá Sjón, allar bækur þríleiksins CoDex 1962 hafa hlotið verðlaunin

Menningarverðlaun DV fyrir árið 2016 voru veitt við hátíðlega athöfn í Iðnó í  miðvikudaginn 15. mars. Verðlaunin hafa verið veitt árlega frá árinu 1979 fyrir framúrskarandi árangur á menningarsviðinu, í þetta skiptið í 9 flokkum – bókmenntum, fræðum, arkitektúr, hönnun, kvikmyndalist, danslist, leiklist, myndlist og tónlist. Þar að auki afhenti forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson Kristbjörgu Kjeld, leikkonu, heiðursverðlaun DV og Ásrún Magnúsdóttir, danshöfundur, og stelpurnar í dansverkinu Grrrls voru hlutskarpastar í netkosningu til lesendaverðlauna dv.is.

Rithöfundurinn Sjón hlaut verðlaunin í flokki bókmennta fyrir skáldsöguna Ég er sofandi hurð, sem er þriðju hluti þríleiksins CoDex 1962. Hann hefur einmitt hlotið verðlaunin fyrir fyrri tvo hluta þríleiksins, Augu þín sáu mig (árið 1995) og Með titrandi tár (árið 2002). Það er einsdæmi að rithöfundur hafi hlotið verðlaunin fyrir alla hluta eins og sama þríleiksins.

 

Eftirfarandi einstaklingar og hópar hlutu Menningarverðlaun DV 2016.

 

Bókmenntir – Sjón fyrir skáldsöguna Ég er sofandi hurð.

Fræði – Guðrún Ingólfsdóttir fyrir fræðiritið Á hverju liggja ekki vorar göfugu kellíngar.

Tónlist – Hildur Guðnadóttir, tónskáld og sellóleikari.

Danslist – Helena Jónsdóttir, fyrir brautryðjandastarf í dansmyndagerð á Íslandi.
Leiklist – Sólveig Guðmundsdóttir, fyrir leik sinn í Illsku og Sóley Rós ræstitæknir.
Kvikmyndir – Kvikmyndahátíðin Stockfish Film Festival.
Myndlist – Hildur Bjarnadóttir, myndlistarkona og textíllistamaður.
Hönnun – Hönnunarfyrirtækið Tulipop.
Arkitektúr – PKdM arkitektar fyrir skrifstofur og verksmiðju Alvogen í Vatnsmýri.

Lesendaverðlaun dv.is – Ásrún Magnúsdóttir, danshöfundur, og stelpurnar í dansverkinu Grrrls

Heiðursverðlaun – Kristbjörg Kjeld, leikkona.

 

Hér fyrir neðan má sjá rökstuðning dómnefnda fyrir valinu.

 

Bókmenntir

Sjón fyrir skáldsöguna Ég er sofandi hurð

„Ég er sofandi hurð er glæsilegur endapunktur á ævintýralegum sagnabálki. Í heild sinni er þríleikurinn, sem hófst með Augu þín sáu mig, hélt áfram í Með titrandi tár og lýkur nú, einstætt verk í íslenskri bókmenntasögu. Frásagnargaldur þar sem öllum brögðum er beitt til að skoða manninn í heiminum og hugmyndaflugið í manninum. Lokabókin heldur sig á slóðum dirfskufullrar sambræðslu bókmenntalegrar hámenningar, goðsagna og afþreyingarmenningar. Sjón hnýtir þá hnúta sem þarf og leyfir öðrum þráðum að lafa lausum af öryggi hins þroskaða en hrekkjótta sögumanns.“

Dómnefnd: Þorgeir Tryggvason, Guðrún Baldvinsdóttir og Halla Þórlaug Óskarsdóttir.

 

Fræði

Guðrún Ingólfsdóttir fyrir fræðiritið Á hverju liggja ekki vorar göfugu kellíngar

„Í verkinu Á hverju liggja ekki vorar göfugu kellíngar fjallar Guðrún Ingólfsdóttir um sambúð bóka og íslenskra kvenna á líflegan og einkar læsilegan hátt. Mikið nýmæli er að bókinni enda hefur svipuð rannsókn á bókmenningu kvenna hvorki verið gerð hérlendis né erlendis. Bókin er einstaklega vönduð og með rannsókn sinni opnar Guðrún lesendum nýja sýn og merkilega á líf íslenskra kvenna á miðöldum til 1730. Bókin er fjársjóður fyrir þau sem eru áhugasöm um kvennasögu og kvennabókmenntir.“

Dómnefnd: Árni Matthíasson (formaður), Hildigunnur Þráinsdóttir og Soffía Auður Birgisdóttir.

 

Tónlist

Hildur Guðnadóttir, tónskáld og sellóleikari

„Tónskáldið Hildur Guðnadóttir hefur vakið athygli fyrir einstaklega persónulegan hljóðheim en tónlist hennar hefur verið gefin út af plötuútgáfunni Touch (Without Sinking (2009), Mount A (2010), Leyfðu ljósinu (2012) og Saman (2014)). Hildur hefur samið tónlist fyrir alls kyns hljóðfærasamsetningar og samhengi, sinfóníuhljómsveitir, kammersveitir, kóra og leikhús; átt í gjöfulu samstarfi við aðra tónlistarmenn og samið eftirminnilega tónlist fyrir sjónvarpsþætti og kvikmyndir, þar á meðal sjónvarpsþættina Ófærð og kvikmyndina Eiðinn og tónlist hennar hljómaði í stórmyndunum The Revenant og Sicario. Hildur er heiðarlegur, hugrakkur og leitandi tónlistarmaður sem fann snemma sína rödd, íhugula og djúpa. Sú rödd hefur fengið að halda áfram að þroskast og vaxa með hverri nýrri áskorun sem tónlistarkonan tekst á við.“

Dómnefnd: Elísabet Indra Ragnarsdóttir (formaður), Kristján Freyr Halldórsson og Alexandra Kjeld.

 

Danslist

Helena Jónsdóttir, fyrir brautryðjandastarf í dansmyndagerð á Íslandi

„Helena Jónsdóttir, dans- og kvikmyndagerðarkona, er tilnefnd fyrir brautryðjandastarf í dansmyndagerð á Ísland. Í hátt á annan áratug hefur Helena verið óhrædd við að deila hugmyndum sínum, þekkingu og aðferðum í dansmyndagerð. Hún hefur verið öflug í að skapa þessu listformi, þar sem kvikmyndagerð og danslist mætast, veg og virðingu og byggja það upp. Spor Helenu liggja víða og skiptir þá ekki máli hvort litið er til uppbyggingar náms í lista- og kvikmyndaskólum landsins, námskeiðahalds fyrir dans- og kvikmyndahátíðir, verkefnavals fyrir bíóhús og sjónvarp eða innsetningar í gallerí og leikhús. Er þá ónefnd brúarsmíðin sem felst í að skapa tengsl við hátíðir og framleiðendur á alþjóðavettvangi, en þeim tengslum deilir hún gjarnan með öðrum ungum dansmyndagerðarmönnum. Eftir Helenu liggur fjöldinn allur af dansmyndum. Enn ein rósin í hennar hnappagat er velgengni myndar hennar og Veru Sölvadóttur, Gone, sem hlaut á árinu 2016 fjölda alþjóðlegra verðlauna og viðurkenninga.“

Dómnefnd. Karen María Jónsdóttir (formaður), Ólöf Ingólfsdóttir, Margrét Áskelsdóttir.

 

Leiklist

Sólveig Guðmundsdóttir, fyrir leik sinn í Illsku og Sóley Rós ræstitæknir.

„Sólveig Guðmundsdóttir er tilnefnd fyrir leik sinn í Illsku og Sóleyju Rós ræstitækni. Sólveig hefur verið vaxandi leikkona og vakti mikla athygli í verkinu Illsku sem Óskabörn ógæfunnar unnu úr samnefndri skáldsögu Eiríks Arnar Norðdahl og settu upp á árinu á Litla sviði Borgarleikhússins. Þar túlkar Sólveig af ástríðu og næmi mótsagnakenndar tilfinningar persónunnar Agnesar. Ekki vakti síður athygli uppfærsla Sólveigar og Maríu Reyndal á leikriti þeirra Sóleyju Rós ræstitækni sem Kvenfélagið Garpur setti upp í Tjarnarbíói. Þar býr Sólveig til heila manneskju á sviðinu, með karakter og sögu, sérstakan talsmáta, stóra og smáa takta og kæki, vitsmuni, veikleika og styrkleika, djúpstæða réttlætiskennd en líka djúpstæða minnimáttarkennd og lætur áhorfendur bæði gráta og hlæja með sér.“

Dómnefnd: Silja Aðalsteinsdóttir (formaður), Bryndís Loftsdóttir og Silja Björk Huldudóttir.

 

Kvikmyndir

Kvikmyndahátíðin Stockfish Film Festival

„Fátt hefur gert meira til að bæta kvikmyndamenningu þjóðarinnar á undanförnum árum en Bíó Paradís og Stockfish hátíðin henni tengd. Auk þess að bjóða upp á úrval þess helsta í kvikmyndagerð heimsins fær hátíðin til sín góða gesti og heldur umræðufundi þar sem ýmsar hliðar kvikmyndalistarinnar eru ræddar. Stockfish gerir þannig sitt til að gera Íslendinga að betri kvikmyndagerðarmönnum og unnendum.“

Dómnefnd: Vera Wonder Sölvadóttir (formaður), Valur Gunnarsson og Ísold Uggadóttir.

 

Myndlist

Hildur Bjarnadóttir, myndlistarkona og textíllistamaður.

„Hildur Bjarnadóttir (f. 1969) hélt tvær sýningar í Reykjavík á síðasta ári sem undirstrikuðu vel sérstöðu hennar og einstakan skilning hennar á efnivið sínum og aðferðum. Hildur hefur um árabil verið einn framsæknasti textíllistamaður okkar og hefur í raun umbylt því hvernig við lítum á tilgang og möguleika þessa listmiðils. Sýning hennar í Vestursal Kjarvalsstaða bar heitið Vistkerfi lita og samanstóð af lituðum textíl. Litina hafði Hildur unnið úr gróðri af landspildu sem hún á í Flóahreppi en þar vex blóðberg, krossmaðra, hrútaberjalyng, þursaskegg, klófífa, hálmgresi og mýrasóley, ilmreyr, bugðupuntur, mjaðjurt, og fleira. Allan þennan gróður má nota til að lita þræði og ofið efni. Sýningarverkefnið verður þannig skráning á landinu og náttúrunni, yfirlit yfir það vistkerfi sem þrífst á þessum bletti á Suðurlandi. Undir lok árs opnaði Hildur svo aðra sýningu í Hverfisgalleríi þar sem hún sýndi nýjustu verk sín.“

Dómnefnd: Jón Proppé (formaður), Helga Óskarsdóttir og Jón B.K. Ransu.

 

Hönnun

Hönnunarfyrirtækið Tulipop

„Fyrir sjö árum stofnuðu Signý Kolbeinsdóttir og Helga Árnadóttir fyrirtæki utan um Tulipop-ævintýraheiminn. Síðan hafa um sjötíu vörur verið framleiddar undir merkinu, meðal annars borðbúnaður, lampar, töskur og annar nytjavarningur. Fyrirtækið hefur til þessa selt vörur sínar til 120 verslana í 14 löndum, en nýverið keypti bandaríski leikfangaframleiðandinn Toynami réttinn til framleiðslu á Tulipop leikföngum sem koma á markað síðar á árinu. Afrakstur samstarfsins eru bangsar, plastfígúrur og sparibaukur og verður leikföngunum dreift í hundrað verslanir í Bandaríkjunum til að byrja með.“

Dómnefnd: Tinni Sveinsson (formaður) og Arnar Fells Gunnarsson.

 

Arkitektúr

PKdM arkitektar fyrir skrifstofur og verksmiðju Alvogen í Vatnsmýri

„Nýbygging líftæknifyrirtækisins Alvotech er hluti af skipulagi Vísindagarða í Vatnsmýrinni. Byggingin er þrískipt með inndregna efstu hæð. Norðurálman hýsir skrifstofur fyrir almennan rekstur. Fyrir miðju er framleiðsluhlutinn þar sem fer fram þróun og síðar einnig vinnsla. Suðurálman hýsir vinnurými fyrir rannsóknarteymin sem vinna í framleiðsluhlutanum. Undir öllu er kjallari með tæknirýmum og bílageymslu. Anddyrið er rúmgott þriggja hæða rými sem tengir saman öll skrifstofurými norðanmegin. Í millibilinu milli norðurálmu og framleiðsluhluta er hringstigi sem er er fókuspunktur hússins og er vel sýnilegur að utan.

Listaverk leika stórt hlutverk í upplifun á rýmum utan sem innan. Við norðurenda lóðar er listaverk eftir Sigurð Guðmundsson og stórt vegglistaverk eftir Erró skreytir matsalinn á efstu hæð. Vinnurými eru björt, opin og mjög vel skipulögð. Efnisval og litaval er einfalt en þar sem ólík efni eða litir mætast er gaumur gefinn að bestu lausn hverju sinni. Vegna starfseminnar er þó nokkuð af lokuðum flötum á úthliðum. Markvisst er unnið að því að brjóta upp skalann með opnum og lokuðum flötum, lóðréttum og láréttum línum í forsteyptum einingum. Það gefur byggingunni manneskjulegan mælikvarða og aðlagar hana að næsta nágrenni. Aðalinngangur er gerður sýnilegri með lóðréttu líparíti. Deili, utan og innan, eru úthugsuð og fáguð í sínum einfaldleika. Að mati dómnefndar er byggingin einstaklega fallegt dæmi um velheppnaða samvinnu og metnað allra þeirra aðila sem komu að verkinu, bæði á hönnunar- og framkvæmdatíma, til að skila af sér vönduðu og fagmannlegu handverki.“

Dómnefnd: Aðalheiður Atladóttir (formaður), Laufey Agnarsdóttir og Þórarinn Malmquist.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com