Ran Flygenring

Heimsókn til Vigdísar | Sýning fyrir börn og fjölskyldur

Heimsókn til Vigdísar | Sýning fyrir börn og fjölskyldur
Borgarbókasafnið | Menningarhús Gerðubergi
Sýningartímabil: 12. september 2020 – 21. febrúar 2021

Á sýningunni Heimsókn til Vigdísar er gestum á öllum aldri boðið að ganga inn í söguheim bókarinnar Vigdís. Bókin um fyrsta konuforsetann. Rán Flygenring, rit- og myndhöfundur, hannar sýninguna í samstarfi við Emblu Vigfúsdóttur sýningarstjóra. Segja má að veröld Vigdísar Finnbogadóttur, sem var fyrst kvenna kjörin forseti í heiminum, lifni við og gestir fá að kíkja í heimsókn og spegla sig í þeim gildum sem hún hefur alla tíð lagt svo mikla áherslu á, jafnt í lífi sem starfi. Sjón er sögu ríkari!

Hugsaðu stórt!

Getur hver sem er orðið forseti? Skiptir máli að eiga sér fyrirmynd? Getum við sjálf orðið fyrirmynd annarra? Hvernig getum við ræktað okkar innri mann og um leið okkar eigin menningu?

Á sýningunni gefst tækifæri til að takast á við stórar spurningar sem þessar með börnum og ungmennum og taka þátt í fjölbreyttri dagskrá sem verður í boði á sýningartímanum.

Sýningarstjórn er höndum Emblu Vigfúsdóttur og Ránar Flygenring.
Aðstoð við uppsetningu og umsjón með leiðsögnum er í höndum Svanhildar Höllu Haraldsdóttur og Helga Gríms Hermannssonar.

Dagskrá

Á opnunardegi sýningarinnar leiðir Rán Flygenring smiðju undir yfirskriftinni Forsíðumyndin af þér þar sem krakkar velta fyrir sér hver þau muni verða í framtíðinni og hvernig forsíðan á bókinni um þau sjálf komi til með að líta út. Skráning í smiðjuna fer fram á heimasíðu Borgarbókasafnsins.

Á sýningartímanum verður boðið upp á fjölbreytta dagskrá, s.s. plöntuleiðangur í nágrenni Gerðubergs, brúðuleikhús og teiknismiðju. Einnig verða leiðsagnir í boði fyrir skólahópa.

Vinsamlegast athugið að gestir þurfa að skrá sig á alla viðburði sem boðið verður upp í tengslum við sýninguna. Á opnunardegi sýningarinnar, laugardaginn 12. september, verður rýmri opnunartími en venjulega í Gerðubergi, eða frá kl. 10-18. Kaffihúsið verður opið og vel gætt að fjarlægðarmörkum í Gerðubergi, s.s. á sýningarsvæði, kaffihúsi og í smiðjurými.

Verið hjartanlega velkomin. Aðgangur ókeypis.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com