Á Skjön Poster

Heimildamyndin “Á skjön” í Bíó Paradís á annan í jólum

Jólamynd Bíó Paradísar 2019 er Á Skjön, er heimildamynd í fullri lengd um Magnús Pálsson, hljóðskúlptúrista. Hefjast sýningar á annan í jólum og standa fram á nýja árið. Höfundur er Steinþór Birgisson, en framleiðandi Steintún.

Magnús gat sér gott orð þegar á áttunda áratug síðustu aldar fyrir leikni sína í því að taka gifsafsteypur af ólíklegustu fyrirbærum á borð við hljóð, tíma, spennu og jafnvel ást. Þegar á leið færði hann sig yfir í fjölbreyttari efnivið og hóf að móta verk sín úr þáttakendum, tíma, skrjáfi smáhluta og hrynjandi mannlegs máls, svo fátt eitt sé nefnt. 

Í Á Skjön horfir kvikmyndatökuvélin á listamanninn við iðju sína af stuttu færi, hvort sem hann er að glíma við hugmyndir sem enn eru varla til, eða klóra sér í höfðinu yfir gömlum verkum. Fylgst er með ferðalagi nýja efnisins í átt til veruleikans, samhliða því sem listamanninum sjálfum miðar smám saman áfram í ökuferð án augljóss fyrirheits. Magnús er kominn á níræðisaldur og nýtur loks þess meðbyrs sem hann þarf til að færa verk sín upp með sóma í háborgum íslenskar menningar, á Listahátíð í Reykjavík og með Sinfóníuhljómsveit Íslands í Eldborgarsal Hörpu. 

Þó dagar hins aldna nýlistamanns einkennist öðru fremur af yfirlætislausu vafstri, fer ekki hjá því að dýpri spurningar vakni. Hvert er förinni heitið? Hvað er list og hvað ekki? Hvort ber að taka á henni með hvítum hönskum eða berum höndunum? Hefði fimm ára sonur áhorfandans getað búið til þessi verk?

Synops

Heimildamyndin Á Skjön fylgir sköpunarferli nútímalistar eftir af stuttu færi í holdgervingu Magnúsar Pálssonar, eins helsta brautryðjanda og árhrifavalds íslenskrar nútímalistar frá upphafi. Hvað er list og hvernig verður hún til? Meikar hún einhvern sens? Mynd fyrir alla sem hafa einhvern tímann velt því fyrir sér hver er tilgangurinn með þessu öllu saman.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com