Listasafnreykjavíkur

Haustlaukar Leiðsögn listamanns: Berglind Jóna Hlynsdóttir Sunnudag 22. september kl. 15.30 á þaki Tollhúss Reykjavíkur

Berglind Jóna Hlynsdóttir segir frá verki sínu á þaki Tollhússins í Reykjavík sunnudaginn 22. september kl. 15.30. Ókeypis aðgangur.

Biðin er löng – Tollhúsið 1. bindi  er er byggt á rannsókn Berglindar Jónu á sögu Tollhússins í Reykjavík og svæðinu þar í kring. Frá því að framkvæmdir hófust við húsið árið 1967 hefur það og svæðið umhverfis tekið miklum breytingum. Í takt við fólksfjölgun í borginni, breyttar þarfir í samgöngum og umsvifum hafnarinnar, vaxandi bílaumferð og nýjar áherslur í skipulagsmálum hafa komið fram mismunandi tillögur um hlutverk Tollhússins í borgarskipulaginu. Þær hafa ýmist ekki komist til framkvæmdar eða ekki verið kláraðar að fullu. Þó má enn greina ummerki um framtíðarsýn fortíðar í byggingunni sjálfri, umhverfinu og núverandi áformum fyrir svæðið. Berglind Jóna veltir fyrir sér þeirri framtíð sem ekki varð, hvar við erum stödd í samtímanum og þeim framtíðarhorfum sem nú birtast í nánasta umhverfi byggingarinnar. Verkið er unnið í samstarfi við tónskáldið Pál Ivan frá Eiðum.

Ljósmynd: Friðþjófur Helgason / Ljósmyndasafn Reykjavíkur

Verkið er hluti af sýningunni Haustlaukar – Ný myndlist í almannarými sem stendur yfir utan safnhúsanna í september.  Fimm myndlistarmenn sýna þar ný verk sem birtast á fjölbreyttan og nýstárlegan hátt víða um Reykjavík og í því sameiginlega rými sem tækni samtímans býður upp á. Listamennirnir eru: Ásgerður Birna Björnsdóttir, Berglind Jóna Hlynsdóttir, Curver Thoroddsen, Snorri Ásmundsson og Þóranna Björnsdóttir. Fylgist með dagskrá sýningarinnar á dagskrársíðu safnsins og á samfélagsmiðlum. Árið 2019 er ár listar í almenningsrými hjá Listasafni Reykjavíkur og er sýningin hluti af því samhengi ásamt fleiri sýningum, viðburðum og miðlunarstarfi. Sýning Berglindar stendur til 29. September 2019.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com