Listasafnreykjavíkur

Haustlaukar − Berglind Jóna Hlynsdóttir: Biðin er löng − Tollhúsið 1. bindi Opnun sunnudag 15. september kl. 15.00 á þaki Tollhúss Reykjavíkur

Opnunartími 15.-29. september
mán.-fös. kl. 10.00-16.00
fim. kl. 10.00-20.00
lau.-sun. 13.00-17.00

Biðin er löng − Tollhúsið 1. bindi er yfirskrift nýs verks á þaki Tollhúss Reykjavíkur í Tryggvagötu. Verkið er byggt á rannsókn Berglindar Jónu á sögu hússins og svæðinu þar í kring. Frá því að framkvæmdir hófust við húsið árið 1967 hefur það og svæðið umhverfis tekið miklum breytingum. Í takt við fólksfjölgun í borginni, breyttar þarfir í samgöngum og umsvifum hafnarinnar, vaxandi bílaumferð og nýjar áherslur í skipulagsmálum hafa komið fram mismunandi tillögur um hlutverk Tollhússins í borgarskipulaginu. Þær hafa ýmist ekki komist til framkvæmdar eða ekki verið kláraðar að fullu. Þó má enn greina ummerki um framtíðarsýn fortíðar í byggingunni sjálfri, umhverfinu og núverandi áformum fyrir svæðið. Berglind Jóna veltir fyrir sér þeirri framtíð sem ekki varð, hvar við erum stödd í samtímanum og þeim framtíðarhorfum sem nú birtast í nánasta umhverfi byggingarinnar. Verkið er unnið í samstarfi við tónskáldið Pál Ivan frá Eiðum.

Berglind Jóna Hlynsdóttir (f. 1979) vinnur í fjölbreytta miðla og beinir sjónum gjarnan að sögu og hlutverki manngerðra staða í almannarými. Hún útskrifaðist með BA gráðu í Myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2006 og MA gráðu frá Valand listaháskólanum í Gautaborg í Svíþjóð árið 2010.

Ljósmynd: Friðþjófur Helgason / Ljósmyndasafn Reykjavíkur

Sýningin Haustlaukar – Ný myndlist í almannarými stendur yfir utan safnhúsanna í september. Fimm myndlistarmenn sýna þar ný verk sem birtast á fjölbreyttan og nýstárlegan hátt víða um Reykjavík og í því sameiginlega rými sem tækni samtímans býður upp á. Listamennirnir eru: Ásgerður Birna Björnsdóttir, Berglind Jóna Hlynsdóttir, Curver Thoroddsen, Snorri Ásmundsson og Þóranna Björnsdóttir. Fylgist með dagskrá sýningarinnar á dagskrársíðu safnsins og á samfélagsmiðlum. Árið 2019 er ár listar í almenningsrými hjá Listasafni Reykjavíkur og er sýningin hluti af því samhengi ásamt fleiri sýningum, viðburðum og miðlunarstarfi. Sýning Berglindar stendur til 29. September 2019.

Sýningin er styrkt af myndlistarsjóði.
Ókeypis aðgangur.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com