Gombri11

Hátíðlegt útgáfuhóf í Ekkisens til að fagna útgáfu bókarinnar Gombri eftir Elín Eddu

Þann fyrsta apríl kl. 20:00 verður opnuð sýning og haldið hátíðlegt útgáfuhóf í Ekkisens til að fagna útgáfu bókarinnar Gombri eftir Elín Eddu. Tónlistarkonan Kaðlín skemmtir gestum og flýtur ný verk á opnuninni og opið verður um helgina 2. – 3. apríl frá kl. 14:00 – 20:00.

Sagan um Gombra er myndabók (graphic novel) sem spannar 200 blaðsíður og er skrifuð af Elín Eddu sem myndskreytir hana einnig af mikilli list. Myndirnar málar hún með bleki og vatnslitum en þær verða til sýnis og sölu á sama tíma og bókin, sem einungis er gefin út í 200 eintökum, verður fáanleg á kostakjörum.

Bókin fjallar um Gombra sem ákveður að yfirgefa heimili sitt, Garðinn, vegna þess að hann er orðinn leiður á drunganum sem umkringir hann. Hann leggur af stað í langt ferðalag — staðráðinn í að snúa ekki aftur. Á leiðinni lendir hann í ýmsum ævintýrum og hittir meðal annars Móður Jörð sem hefur flúið vegna ágengni íbúa sinni.
_______________________________________________________________

Elín Edda er 20 ára nemi á fyrsta ári í grafískri hönnun við Listaháskóla Íslands. Árið 2014 gaf hún út myndasöguna Plöntuna á ganginum í samstarfi við Elísabetu Rún. Á sama tíma opnaði sýning í Borgarbókasafni Reykjavíkur, Tryggvagötu á blaðsíðum bókarinnar.

Elín Edda hefur fengist við teikningu og skriftir frá því hún man eftir sér. Hún notar helst vatnsliti og blek — eins og í Gombra. Henni finnst einlægni mikilvægust fyrir flæði textans og teikningarinnar. Í flæðinu verða oft óvæntar uppákomur. Teikningin á fyrst og fremst að vera frjáls og mistök eru leyfileg. Helst vill Elín Edda gera aðlaðandi myndir og texta sem gefur lesendum nýja sýn á einhvern hátt.

elinedda.com
ekkisens.com

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com