Pongmynd

Harpa kallar eftir tillögum að ljósaverkum

Harpa kallar eftir tillögum að ljósaverkum

Harpa, Stúdío Ólafs Elíassonar og Höfuðborgarstofa kalla eftir tillögum að listaverkum sem nýta sér ljósahjúp Hörpu með frumlegum hætti. Hvatt er til gagnvirkni. Eitt verk verður valið og sýnt á Vetrarhátíð í Reykjavík dagana 4.-7. febrúar 2016. Verðlaunafé er 200.000,- kr.

Forsendur

Í glerhjúpi Hörpu eru alls 714 LED ljós; 486 ljós í austurhúsi og 228 í vesturhúsi. Ljósin geta birt RGB liti og þeim er stýrt með DMX ljósakerfi. Sigurtillagan nýtur ráðgjafar starfsmanna Hörpu og margmiðlunarforritarans Owen Hindley um nánari útfærslu og tæknilega framkvæmd. Umsóknarfrestur er til og með 23. desember 2015 (póststimpill gildir). Þátttakendur skulu skila eftirfarandi gögnum á ensku:

  •  Lýsingu á hugmynd, efnisvali og búnaði eftir því sem við á.
  • Skissum/teikningum af verki.
  • Fjárhagsáætlun sem tekur til helstu verkþátta og kostnaðarliða.
  • Tímaplani og verkáætlun.

Vinsamlega athugið að gögnin séu einungis merkt með dulnefni.

Í dómnefnd sitja:

  • Ólafur Elíasson, listamaður
  • Atli Bollason, listamaður
  • Svanhildur Konráðsdóttir, sviðsstjóri

Með afhendingu á tillögu í samkeppni telst þátttakandi samþykkja dómnefnd og keppnisgögn og að hann muni virða niðurstöðu dómnefndar. Farið verður með öll gögn sem trúnaðarmál. Dómnefndin áskilur sér rétt til að hafna öllum tillögum.

Tillögum skal skilað í lokuðu umslagi merkt „Vetrarhátíð“ í afgreiðslu Hörpu, Austurbakka 2, 101 Reykjavík ellegar rafrænt á edda@harpa.is. Í umslaginu skal vera annað lokað umslag merkt dulnefni en inni í því skal rétt nafn höfundar, heimilisfang, tölvupóstfang og símanúmer koma fram. Sé tillögum skilað rafrænt skal fylgja skrá sem heitir dulnefninu og sömu upplýsingar koma þar fram. Miðað er við að dómnefnd skili niðurstöðum 10. janúar 2016 og að tilkynnt verði um úrslit stuttu síðar.

Fyrir hverja

Samkeppnin er opin öllum, þar á meðal hönnuðum, arkitektum, myndlistarmönnum, tónlistarmönnum, ljósamönnum, rafmagnsverkfræðingum, forriturum eða öðrum þeim sem vinna með ljós, gagnvirkni og/eða list í einhverju formi. Hvatt er til samstarfs milli ólíkra aðila og/eða listgreina. Miðað er við að höfundur/höfundar tillögu sem dómnefnd velur til útfærslu verði ráðinn til verksins.

Verðlaunaféð er 200.000. Greitt er fyrir þá tillögu sem valin verður. Auk þess verður gerður samningur við vinningshafa um framkvæmd hugmyndarinnar.

Útgáfa

Sem verkkaupi mun Harpa, Stúdíó Ólafs Elíassonar og Höfuðborgarstofa kynna vinningstillöguna í fjölmiðlum þar sem höfundar verður getið og samstarfsfólk hans. Verkkaupi mun öðlast sýningarrétt af verðlaunaðri tillögu í 18 mánuði frá frumsýningardegi. Þar að auki má verkkaupi nýta verkefnið í kynningu á starfsemi sinni svo framarlega sem verkefnið er ekki slitið úr listrænu samhengi.

Nánari upplýsingar

Með verkefninu er leitast við að skapa vettvang þar sem íbúar borgarinnar fá að bregðast við Hörpu – einu helsta kennileiti borgarinnar – á nýjan hátt með stafrænni og gagnvirkri list. Í borg sem býr við vetrarmyrkur stóran hluta ársins er enn fremur mikilvægt að íbúarnir geti sameinast í gegnum ljósið og að möguleikar þess séu kannaðir til hins ítrasta.

Við leitum því að verkum sem nýta gagnvirkni og ljósatækni á frumlegan máta; verkum sem hvetja til virkra samskipta milli þátttakenda og sem miða að því að stefna fólki saman. Við leitum að verkum sem vekja spurningar um möguleika borgaranna til að hafa áhrif á umhverfi sitt, sem endurskilgreina hlutverk bygginga á borð við Hörpu og sem sýna fram á möguleika einstaklingsins til að hafa áhrif á borgina.

Með verkefninu er kominn fram nýr og stærri vettvangur fyrir stafræna list í Reykjavík en áður hefur þekkst hér í borg. Með því að veita listamönnum hvaðanæva úr heiminum aðgang að stafrænum striga opnum við augu Reykvíkinga fyrir skapandi rými þar sem möguleikar nýrrar tækni eru skoðaðir til hlítar. Verkefnið veitir jafnt innlendum sem erlendum listamönnum tækifæri til að bregðast við borginni okkar á óteljandi vegu og marka Reykjavík þannig sess sem framsækinni höfuðborg á sviði tækni og lista.

Forsaga – dæmi

Á menningarnótt 2014 settu Atli Bollason og Owen Hindley gagnvirka listaverkið PONG upp á glerhjúpi Hörpu. Verkið fór þannig fram að borgarbúar gátu tengt snjallsíma sína við sérstakan netbeini sem hafði verið komið fyrir á Arnarhóli. Þegar tveir símar höfðu tengt sig var vafra beggja notenda beint á vefsíðu sem skynjaði hreyfingar símans. Símann var þá hægt að nota sem stýripinna í tölvuleiknum PONG þar sem notendurnir tveir mættust. Ljósin í hjúpi Hörpu voru svo notuð sem dílar á risavöxnum skjá þar sem leikurinn var teiknaður í rauntíma.

Þetta var í fyrsta sinn sem hjúpurinn var notaður til annars en að birta myndbönd. Hálfu ári síðar var leikurinn endurtekinn en þá höfðu einnig verið skrifuð forrit sem umbreyttu hljóðmerkjum í ljós og þýddu þannig tónlistina sem var flutt á Sónar hátíðinni yfir í síbreytileg mynstur á ljósahjúpnum.

Skoða Pong myndbönd hér með því að smella hér eða hér.

 

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com