Júlí 2015 048

Harmónikuhátíð og heyannir í Árbæjarsafni á sunnudag

Sunnudaginn 16. júlí, verður hin árlega Harmónikuhátíð Reykjavíkur haldin venju samkvæmt í Árbæjarsafni og hefst dagskráin kl. 13. Munu þar koma fram margir af okkar bestu og þekktustu harmónikuleikurum í skemmtilegu umhverfi safnsins.

Hátíðin hefur verið einn vinsælasti viðburður safnsins undanfarin ár. Á meðal harmónikuleikara sem koma fram eru Reynir Jónasson, Gunnar Kvaran, Guðmundur Samúelsson, Grétar Geirsson, Sigurður Alfonsson, Smárinn o.fl. Þá mun Félag harmónikuunnenda á Suðurnesjum slá upp balli fyrir þá sem vilja dansa.

Harmónikuhátíð Reykjavíkur er haldin í minningu Karls Jónatanssonar, stofnanda hátíðarinnar, en hann skemmti gestum um árabil á Árbæjarsafni með harmónikuleik sínum. Dagskrá dagsins endar síðan með samspili allra harmónikuflytjenda.

 

 

Á safninu geta gestir jafnframt fylgst með og tekið virkan þátt í heyönnum eins og þær tíðkuðust fyrir daga heyvinnuvéla, með þeim fyrirvara að veður haldist þurrt. Um aldir höfðu Íslendingar engin önnur verkfæri en ljá, orf og hrífu til að afla vetrarforðans. Víða var heyjað upp á gamla mátann fram yfir miðja síðustu öld, en nú eru gömlu handbrögðin sjaldséð í sveitum landsins. Missið ekki af þessu tækifæri til að komast í kynni við orf, ljá og hrífur og að taka þannig virkan þátt í heyönnum á Árbæjarsafni.

Safnið er opið frá kl. 10 –17 en hátíðin hefst kl. 13.

Heitt á könnunni í Dillonshúsi og heimilislegar veitingar.

Ókeypis aðgangur fyrir börn, eldri borgara og öryrkja. Handhafar Menningarkorts Reykjavíkur og Gestakortsins fá sömuleiðis frítt inn.

 

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com