Video Still Edit

Harbinger: Listamannaspjall / Artist talk — Anna Júlía Friðbjörnsdóttir

Laugardaginn 3.september kl.15 heldur Anna Júlía Friðbjörnsdóttir listamannaspjall í Harbinger þar sem hún segir frá sýningu sinni 1:1.
Sýningin stendur til 10.september.

Sýning Önnu Júlíu bregður upp brotum sem hvert um sig hefur flóknar tilvísanir er raðast saman eins og kjarnyrt ljóð um firringu nútímans og yfirborðslegt söguleysi. Á veggjum salarins sjáum við forsíður ferðatímarita prentaðar á gipsplötur með purpuralit. Tímaritin auglýsa ferðamannastaði við Miðjarðarhaf en purpuraliturinn hefur líka tilvísun í Miðjarðarhafið því þar var purpuralitur framleiddur til forna úr sæsniglum með aðferð sem týndist þegar Mikligarður féll 1453 og uppgötvaðist ekki aftur fyrr en meira en 200 árum seinna. Í fornöld var þetta eitt dýrasta litarefni sem völ var á enda sniglarnir vandfundnir og vinnsluaðferðin flókin. Nú á dögum veljum við eftir litaspjaldi úr öllu litrófinu og kaupum lit í túpum eða fötum án þess að leiða frekar að því hugann að allir litir eiga sér sögu og stundum ansi flókna. Anna Júlía dregur þetta fram með því að sýna okkur kuðunga purpurasnigilsins og purpuralituð ferðatímaritin fá þá líka dýpri merkingu: Miðjarðarhafið er ekki bara ferðamannaparadís heldur eiga þessir staðir sér langa og oft grimma sögu sem við Vesturlandabúar erum gjarnir á að gleyma og höldum í staðinn að við getum valið úr eins og við veljum lit af spjaldi. En sagan kemur aftan að okkur og síðustu ár hafa sumargestir við Miðjarðarhafið horft á með hryllingi þegar illa förnum flóttamönnum skolar á land á baðströndunum, fórnarlömbum átaka sem eiga sér rætur í sameiginlegri sögu okkar. Titill sýningarinnar, 1:1, vísar í viðbrögð Evrópulandanna sem hafa boðist til að taka við einum flóttamanni af Tyrkjum fyrir hvern sem sendur er til baka.

texti: Jón Proppé


Anna Júlía Friðbjörnsdóttir býr og starfar í Reykjavík. Hún lauk MA námi við Manchester Metropolitan University árið 2004, og lauk BA námi við London Guildhall University árið 1998.
Árið 2007 stofnaði hún myndlistartímaritið Sjónauka í félagi við Karlottu Blöndal og ritstýrðu þær því til 
ársins 2009.
Anna Júlía hefur tekið þátt í samsýningum á Íslandi, í Bretlandi og í Skandinavíu. 1:1 er hennar fyrsta einkasýning.

Sýning er styrkt af Myndlistarsjóði.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com