Bara Ein Lina

Halldór Ragnarsson – Endurgerðir

 

17. september – 2. október 2016

Í Listamenn – Gallerí. Skúlagata 32, 101 Reykjavík.

Halldór Ragnarsson opnar sýningu sína Endurgerðir laugardaginn 17. september kl. 17 í Listamönnum-Gallerí. Á sýningunni er hann, eins og svo oft áður, að skoða tungumálið til að koma hugmyndum sínum í ákveðinn farveg. Hér er Halldór að nýta sér margræðni tungumálsins til að skoða sinn nærheim; og þá kannski sérstaklega til að skoða sína persónulega sýn á hversdagsleikann. Hversdagsleikann, þar sem í raun allt snýst um einhverskonar skipulag; sem á endanum endar í lagskiptingum og eilífðar endurtekningum. Hér má því segja að Halldór sé að vinna með tvíræðni tungumálsins á persónulegan máta, þar sem jafnvel vonir og vonbrigði haldast hönd í hönd, á sama tíma og hann er að vinna með tungumálið á almennan hátt.

Halldór Ragnarsson er fæddur 1981 í Reykjavík. Hann lauk B.A. gráðu (2007) og M.A. gráðu (2014) frá myndlistardeild Listaháskóla Íslands eftir að hafa numið heimspeki áður við Háskóla Íslands.

Hann hefur tekið þátt í samsýningum; bæði hér og erlendis. Endurgerðir er hans áttunda einkasýning.

Að lokum má nefna, að titill sýningarinnar, Endurgerðir, vísar sérstaklega til þess að öll verkin á sýningunni eru í raun “endurgerðir” af verkum (eftir ljósmyndum og minni) sem fórust í bruna á vinnustofu Halldórs á Grettisgötu í mars síðastliðnum. Þessi ákveðnu verk áttu að mynda sömu sýningu sem átti að að vera í Listamönnum-Gallerí í maí 2016. Afraksturinn er hér því “endurtekinn” með Endurgerðum, 6 mánuðum seinna.

www.hragnarsson.com

Mynd: Halldór Ragnarsson, Bara ein lína.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com