Gav

Halldór Ásgeirsson tekur þátt í sýningunni ATHANOR í S-Frakklandi

Föstudaginn 21.október n.k. mun sýningin ATHANOR sem fjallar um tengsl alkemíu og nútímamyndlistar verða opnuð í listamiðstöðinni í Sete í suður Frakklandi (crac.languedocroussillon.fr). Halldór Ásgeirsson mun taka þátt í sýningunni auk þess að flytja performans laugardaginn 22.október sem ber titilinn “Að vekja upp eldfjallið og vökva blómin.” Halldór segir eftirfarandi um verkið :

“Eldurinn galdrar fram hinar ótrúlegustu myndir sem streyma út úr bræddum hraunsteini og býr til sjálfstætt myndmál sem ég síðan höndla eftir eigin leikreglum. Hraunsteinn úr kulnuðu eldfjalli frá Auvergnehéraði í mið Frakklandi hangir í loftinu og beint fyrir neðan hann liggur stór ísklumpur þarsem greypt hefur verið oní fryst rauðvínskúla en þess má geta að í listasetrinu var áður kæligeymsla fyrir sardínur þarsem framleiddur var ís. Ég stíg inn í hringinn og byrja að bræða steininn með logsuðu. Eftir nokkrar sekúndur verður steinninn rauðglóandi og fer að drjúpa úr honum oní ísinn sem bráðnar við það. Hraunið ummyndast í svartan glerung vegna snöggkólnunar í andrúmsloftinuog einnig verða til örfínir þræðir sem kallast “nornahár” á jarðfræðimáli. Droparnir sem leka niður eru í raun safinn innan úr storknuðu hrauninu sem umbreytist síðan í litlar verur, einskonar álfa. Á sama tíma birtist kona með sítt svart hár klædd hvítum kjól sem gengur hægum skrefum og kastar blómum sem hún hefur týnt úr umhverfinu, eða réttara sagt fórnar þeim, inn í hringinn. Samtalið hefst….”

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com