
Halldór Ásgeirsson og ítalski dansarinn Paola Daniele fremja gjörning í aflagðri kapellu
6.mars n.k. kl.18 munu Halldór Ásgeirsson og ítalski dansarinn Paola Daniele fremja gjörning í aflagðri kapellu sem er í dag hluti af sýningarstaðnum Scugnizzo liberato í Napólí á Ítalíu en þar mun opna sýningin ” Il sangue delle donne ” ( Tíðarblóð ) þann 5.mars n.k.
” Dans við Zeus ” kallast gjörningurinn en þar mun Halldór bræða hraunstein úr eldfjallinu Vesúvíusi ofan í fryst tíðarblóð dansarans. Zeus var í raun þekktur í fornri mýþólógíu sem guð regnsins og rósarinnar undir nafninu Huesou huios eða Vesuvius sem eldfjallið fræga dregur nafn sitt af.
Með því að endurvekja eldgosið í hraunsteininum sem hangir undir kappelluhvelfingunni, renna glóandi hrauntaumar ofan í fryst tíðarblóðið á gólfinu sem byrjar smám saman að bráðna og mynda róslitaða tauma sem renna um gólfið. Á sama tíma tjáir dansarinn tifinningar sínar í hreyfingum. Hennar eigið tíðarblóð vaknar aftur til lífsins eins og eldgosið í steininum…