HAFÞÓR YNGVASON – MÁLVERKIÐ Í DAG HÁDEGISFYRIRLESTUR Í MYNDLISTARDEILD

Nýmálað 1     Nýmálað 1

 

 

Hafþór Yngvason 0805575669

 

HAFÞÓR YNGVASON – MÁLVERKIÐ Í DAG

 

HÁDEGISFYRIRLESTUR Í MYNDLISTARDEILD

 

Mánudaginn 13. apríl kl. 12.30 mun Hafþór Yngvason safnstjóri Listasafns Reykjavíkur halda fyrirlestur um sýninguna Nýmálað í fyrirlestrarsal myndlistardeildar að Laugarnesvegi 91.

Hafþór Yngvason hefur verið safnstjóri Listasafns Reykjavíkur síðan 2005. Frá 1995 til 2005 var hann stjórnandi listverkefna í almenningsrými Cambridge borgar í Massachusetts og listrænn stjórnandi sýningaprógramms Cambridge Arts Council. Hann hefur einnig starfað sem framkvæmdastjóri Harcus Gallery í Boston og kennt menningarstjórnun í Boston University. Hann hefur skrifað greinar um myndlist fyrir ýmis bandarísk tímarit, ritstýrt 10 bókum, flutt fjölda fyrirlestra og tekið þátt í pallborðsumræðum og dómnefndum fyrir ýmsa háskóla og opinberar stofnanir í BNA. Hafþór er með MA í listfræði og MA í heimspeki.

 

Í fyrirlestrinum mun Hafþór fjalla um tilurð sýningarinnar Nýmálað sem hann er sýningarstóri á ásamt Kristján Steingrími Jónssyni, ásamt því að fjalla um aðrar málverkasýningar sem hann hefur staðið fyrir á síðustu árum.

 

„Er hægt að draga einhverjar ályktanir af sýningunni og samskonar verkefnum erlendis um stöðu málverksins í dag? Á síðustu árum hefur verið mikil gróska í málaralist víða um heim, eins og ljóst er af sýningum í leiðandi listasöfnum og útgáfu nýrra bóka erlendis. Sýningin Nýmálað leiðir í ljós að Ísland er engin undantekning. Tilgangurinn með sýningunni er að gefa sneiðmynd af stöðu málverksins hér á landi. Um leið og sýnd eru ný verk eftir elstu starfandi málara þjóðarinnar gefst tækifæri til að sjá hvernig málverkið hefur endurnýjað sig sem síkvikur listmiðill með verkum eftir yngstu kynslóð íslenskra málara.“

 

Nánari upplýsingar um Nýmálað og störf Hafþórs eru að finna á vefsíðunni: http://www.listasafnreykjavikur.is/

 

Fyrirlesturinn fer fram á íslensku og eru allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir.
Opnir fyrirlestrar í myndlistardeild

 

Á ári hverju heldur fjöldi lista- og fræðimanna erindi um verk sín og hugmyndir á fyrirlestrum í myndlistardeild. Fyrirlestrarnir eru opnir almenningi og er ætlað að kynna margþætt viðfangsefni úr heimi lista og samtímamenningar og hvetja til umræðu um þau. Fyrirlestrarnir eru mikilvægur þáttur í starfsemi deildarinnar og eru ætlaðir til að efla tengsl milli nemenda og starfandi lista- og fræðimanna.

 

Fyrirlestrar í myndlistardeild fara fram í fyrirlestrarsalnum að Laugarnesvegi 91. Þeir eru opnir almenningi og er aðgangur ókeypis.

 

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com