Diktur1 (683×1024)

Hafnarborgar sýningin Hraun og mynd og sýningin DIKTUR

Sunnudaginn 6. mars kl. 14 mun Ágústa Kristófersdóttir, forstöðumaður Hafnarborgar, leiða gesti um sýningar safnsins. Það eru í aðalsal Hafnarborgar sýningin Hraun og mynd, verk eftir Kristberg Ó. Pétursson og í Sverrissal, sýningin DIKTUR, með verkum Ragnhildar Jóhanns en þetta er jafnframt síðasti sýningardagur hennar.

Þennan sama dag klukkan 16 mun Nýló-kórinn flytja bókverkið Kapítulakonseptið í heild sinni undir stjórn Þráins Hjálmarssonar. Það er bókverk sem Ragnhildur gefur út í tilefni sýningarlokanna. Bókverkið kemur út í 39 handsaumuðum og tölusettum eintökum. Bókverkið er kaflaskipt ljóðverk sem unnið er upp úr gamalli bók þar sem hver kafli bókarinnar er brotinn niður í eitt niðurskorið ljóð. Bókverkið er til sölu í Hafnarborg þennan dag og kostar kr. 5.000,-. Einungis er hægt að greiða með reiðufé.

DIKTUR
Efniviður Ragnhildar eru fundnar, notaðar bækur sem í meðförum hennar umbreytast og öðlast þar með aðra tilvist. Ragnhildur skrumskælir notagildi þessa hversdagslega hlutar, bókarinnar, og gæðir efnislegan hluta hennar nýju lífi.

Hraun og mynd
Eftir margra áratuga samneyti við hraunið í heimabyggð má segja að það móti í flestu viðhorf Kristbergs til náttúru og heimsmyndar. Áferðarríkur og dimmleitur flötur verka hans verður eins og ævagamall og hálfgagnsær hamur eða hlífðarlag utan um lifandi innviði.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com