21371301 10156021345468974 4143842009158338280 N

Hádegisfundur

Velkomin á myndlistarsýninguna Hádegisfundur laugardaginn 9. september næstkomandi.

Listamenn:

Sigurður Ámundason
Una Björg Magnúsdóttir


Sýningin fer fram í fundarsal Hótel Sögu, Kötlu, á 2. hæð
hótelsins milli kl.12 og 16. Innangengt frá norðurhlið hússins. 

Sýningin verður aðeins opin þennan eina dag. 
Hádegiskaffi verður á boðstólum, kaffi og kleinur!

———–

K: Hvað er fundarherbergi?

B: Fundarherbergi er staður þar sem hópur fólks hittist og talar saman.

K: Getur þú komið með dæmi?

B: Já. Segjum sem svo að þig langi til að hitta nokkra vini til þess að skipuleggja komandi tíma, hvort sem það er tengt áhugamálum eða starfi. Þú ættir að koma fólki saman í góðri aðstöðu til þess að geta talað saman, ótruflað. Þá væri t.d. sniðugt að bóka svona fundarherbergi, þau eru gerð til þess að fólk eigi bæði afslappaða og einbeitta umræðu.

K: Er fundarherbergi staður þar sem fólk talar saman um það sem það vill gera nokkrum dögum síðar?

B: Já það er rosa gott að skipuleggja sig á svona stöðum. Skoða dagatöl, hlusta á kynningar… Sitja kyrr mjög lengi með hendurnar svona *gerir þríhyrning með báðum höndum* fyrir framan hökuna. Mjög mikilvægt að hafa góða stellingu.

K: Hvernig hjálpar það til að vera í góðri stellingu?

B: Það er mikilvægt að samstilla sig umhverfinu. Stólarnir eru í svona stellingu, með silfurfótum. Þeir grafa sig ofan í teppið. Ákveðnir, einbeittir, eins og stemmingin í herberginu á að vera. Borðin eru svona, nógu lág til þess að allir hafi yfirsýn á því sem er að gerast. Yfirsýn og þægindi.

K: Það er styrkur í góðri fundaraðstöðu. Gott ef staðurinn lætur þér líða vel.

B: Ég held að einhver hafi komið hingað inn og sagt ekki neitt. Bara verið í fundarherberginu.

K: Fundaraðstaðan verður að vera nógu góð til þess að langa til að koma hingað og segja ekki neitt. Í fullkomnu umhverfi. Í svona augnabliki með stólunum, borðunum… teppinu og útsýninu.

B: Síðan mæta hinir, þá byrjar fundurinn.

Texti – Bergur Thomas Anderson
————

Sigurður Ámundason(f.1986) útskrifaðist árið 2012 frá myndlistardeild Listaháskóla Íslands. Síðan þá hefur hann tekið þátt í fjölmörgum samsýningum, framið tugi gjörninga og haldið fimm einkasýningar. Síðastliðin ár hefur Sigurður einbeitt sér mikið að teikningum og gjörningalist en hægt og rólega hefur áhugi hans á ritlist, vídeólist og innsetningum aukist. Nýlegar sýningar Sigurðar eru Zing Zam Blunder í Harbinger, Velouria í gallerí Laugalæk og Chart Emerging í Danmörku. 

Una Björg Magnúsdóttir(f.1990) lauk BA-gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands vor 2014. Síðan þá hefur hún tekið þátt í ýmsum verkefnum og sýningum. Hún leggur nú stund á mastersnám í myndlist við ÉCAL í Lausanne, Sviss. Fyrri sýningar Unu Bjargar eru meðal annars Svona, svona, svona í Safnahúsinu, Tender bend í Kling & Bang og Meðvirkni í Harbinger.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com