Guðún Tryggvadóttir

Guðrún Arndís Tryggvadóttir LÍFSVERK – þrettán kirkjur Ámunda Jónssonar Hallgrímskirkju – 1. desember 2019 – 1. mars 2020

Sýning Guðrúnar A. Tryggavdóttur LÍFSVERK í fordyri Hallgrímskirkju opnar þ. 1. desember kl. 12:15.

Lífshlaup Ámunda Jónssonar (1738–1805) er efniviður í verkum Guðrúnar en hún byrjaði leitina að sögunni fyrir rúmum tveimur árum, fyrst af forvitni um myndlist fyrri alda og síðan af ákafa yfir því sem í ljós kom við leitina. Sýningunni er fylgt eftir með samnefndri bók.

Verkin sem Guðrún sýnir í Hallgrímskirkju eru ákveðin niðurstaða sem hún varpar fram. Áherslan er á samhengið í lífi almúgafjölskyldu undir Eyjafjöllum og þess myndmáls sem trúin beitir til að koma skilaboðum sínum á framfæri. Skilaboðum sem kristallast í fæðingunni, voninni og fórninni. Spurningum er einnig varpað fram um tímann og raunverulegan lífsferil okkar í rými alheimsins og gerð tilraun til að koma mannlegum afköstum til skila með formum.

Sýningarstjóri er Hrafnhildur Schram.

Um listamanninn:

Guðrún Arndís Tryggvadóttir er fædd í Reykjavík árið 1958. Hún nam við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1974–78, École nationale supérieure des Beaux-Arts í París 1978–79 og Akademie der Bildenden Künste í München 1979–83 þar sem hún hlaut hin virtu útskriftarverðlaun bæverska sambandslýðveldisins, Bayerischer Debütanten Förderpreis für Künstler und Publizisten. Guðrún hefur haldið sýningar hér heima, í Evrópu og Bandaríkjunum og hlotið fjölda viður-kenninga, bæði fyrir myndlist sína og störf á sviði nýsköpunar en hún hefur verið frumkvöðull á ýmsum sviðum, stofnað og rekið myndlistarskólann RÝMI og listrænu hönnunarstofuna Kunst & Werbung / Art & Advertising sem hún rak í Þýskalandi og hér á landi um árabil.

Guðrún stofnaði einnig og rak umhverfisvefinn Náttúran.is um tíu ára skeið en hún hefur verið í framvarðasveit fyrir umhverfisfræðslu á Íslandi frá því að hún sneri aftur heim til Íslands árið 2000. Vefurinn hlaut m.a. Kuðunginn, umhverfisviðurkenningu umhverfis  og auðlindaráðuneytisins 2012. Aðalefniviður í myndlist Guðrúnar er olía á striga en hin stóru málverk hennar byggjast á sterkum hugmyndafræðilegum og oft sögulegum grunni. Verk hennar er að finna í opinberum söfnum hér á landi og erlendis.

Nánar um listferil Guðrúnar á tryggvadottir.com

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com