Listasalur (002)

Guðlaug Mía Eyþórsdóttir opnar sýninguna Milli hluta í Listasal Mosfellsbæjar

Guðlaug Mía Eyþórsdóttir opnar sýninguna Milli hluta í Listasal Mosfellsbæjar mánudaginn 14. september. Athugið að ekki verður sérstök opnun vegna Covid-19. Síðasti sýningardagur er 9. október. Sýningin er styrkt af Myndlistarsjóði og Launasjóði listamanna.

Guðlaug Mía Eyþórsdóttir (f. 1988) útskrifaðist með BA gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2012 og lauk mastersnámi frá Koninklijke Academie í Gent, Belgíu árið 2018. Hún hefur tekið þátt í fjölda sýninga bæði hérlendis og erlendis.

Í myndlist sinni skoðar Guðlaug Mía skúlptúríska þætti í manngerðu umhverfi okkar, gaumgæfir þau form sem nærumhverfi okkar samanstendur af og athugar hvort efnisgera megi daglegar athafnir. Efni, litatónar og fagurfræði hversdagslegra hluta nýtast sem efniviðir í skúlptúra sem finna sér stað í sýningarrýminu. Með því að nota hversdagslega hluti og athafnir sem innblástur að verkum sínum endurbirtir Guðlaug Mía okkur kunnugleg form, tóna og áferðir svo nýjar merkingar verða til.

Listasalur Mosfellsbæjar er inn af Bókasafni Mosfellsbæjar, Kjarna, Þverholti 2. Opið er kl. 12-18 virka daga og kl. 12-16 á laugardögum

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com