Salur

Guðjón Ketilsson opnar einkasýninguna TEIKN

GUÐJÓN KETILSSON – TEIKN

Þann 15. febrúar n.k. verður opnuð í Listasafni Reykjanesbæjar sýning á nýjum verkum Guðjóns Ketilssonar myndlistarmanns. Sýningin, sem nefnist „Teikn“, er samsett úr verkum sem öll fjalla með einum eða öðrum hætti um tákn, táknmerkingu og „lestur“ í víðasta skilningi.

Guðjón er með allra markverðustu myndlistarmönnum þjóðarinnar og hefur haldið yfir þrjátíu einkasýningar og tekið þátt í samsýningum um allan heim. Hann hefur hlotið margar opinberar viðurkenningar og gert verk sem finna má á opnum svæðum á ýmsum stöðum.

Verk Guðjóns er að finna í helstu listasöfnum landsins. Listamaðurinn hefur unnið jöfnum höndum að gerð þrívíddarverka og teikninga. Verk hans eru hvorttveggja í senn völundarsmíði og hugleiðingar um tilvist manns, þau spor sem hann markar sér í raunheimi með gjörðum sínum og þær aðferðir sem hann notar til að gera sig skiljanlegan í menningarlegu nærumhverfi sínu. Mörg helstu verka Guðjóns eru uppfull með vísbendingar, tákn og tilvitnanir sem mynda eins konar huglæg rými sem áhorfandinn gerist þáttakandi í og upplifir á eigin skinni. Verkin í Listasafni Reykjanesbæjar eru þess eðlis. Guðjón tók þátt í samsýningunni „Þríviður“ í Listasafni Reykjaness árið 2008, en sú sýning var kjörin ein af listsýningum ársins af fjölmiðlum.

Sýningarstjóri er Aðalsteinn Ingólfsson, listfræðingur, en auk hans ritar skáldið Sjón hugleiðingu um „fundið myndletur“ Guðjóns í sýningarskrá, þar sem hann grennslast fyrir um hugsanlegan boðskap þess. Listamaðurinn verður með leiðsögn sunnudaginn 10.mars kl. 15.00. Sýningin  Teikn er í sal Listasafns Reykjanesbæjar í Duus Safnahúsum og stendur til 22.apríl. Safnið er opið alla daga frá 12.00-17.00.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com