Safnahelgi

Guðjón Ketilsson með leiðsögn á Safnahelgi á Suðurnesjum

Um helgina er haldin Safnahelgi á Suðurnesjum þar sem söfn, setur og sýningar bjóða heim gestum og brydda upp á margvíslega dagskrá af því tilefni.

Listasafn Reykjanesbæjar lætur ekki sitt eftir liggja og býður upp á leiðsögn um nýopnaða sýningu Guðjóns Ketilssonar TEIKN. Það er Guðjón sjálfur, ásamt Aðalsteini Ingólfssyni sýningarstjóra, sem tekur á móti gestum.

Leiðsögnin fer fram kl. 15 sunnudaginn 10.mars.

Sýningin er samsett úr 8 verkum sem öll fjalla með einum eða öðrum hætti um tákn, táknmerkingu og „lestur“ í víðasta skilningi þessara orða. Listamaðurinn hefur unnið jöfnum höndum að gerð þrívíddarverka og teikninga eins og sjá má á sýningunni. Verk hans eru hvorttveggja í senn völundarsmíði og hugleiðingar um tilvist manns, þau spor sem hann markar sér í raunheimi með gjörðum sínum og þær aðferðir sem hann notar til að gera sig skiljanlegan í menningarlegu nærumhverfi sínu. Mörg helstu verka Guðjóns eru uppfull af vísbendingum, táknum og tilvitnunum sem mynda eins konar huglæg rými sem áhorfandinn gerist þátttakandi í og upplifir á eigin skinni. Verkin á sýningunni „Teikn“ eru einmitt þess eðlis.

Safnið er opið alla daga frá kl. 12 -17 og er ókeypis aðgangur um helgina. Sýningin er staðsett í Duus Safnahúsum og stendur til 22.apríl. Dagskrá Safnahelgar á Suðurnesjum er að finna á safnahelgi.is

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com