Untitled 1

Grafið og geymt, í Grafíksalnum

Magdalena Margrét Kjartansdóttir opnar  sýninguna Grafið og geymt, í Grafíksalnum Tryggvagötu 17 (hafnarmegin) á Menningarnótt 20. ágúst klukkan 17:00.

Heiti sýningarinnar vísar til vinnuferlisins sem á sér stað við sköpun verkanna. Magdalena leggur mikla vinnu í verkin þegar hún sker, heggur og grefur í tré og dúka alls kyns mynstur og form sem einkum byggjast á formum mannslíkamans. Þetta ferli er í forsæti á sýningunni.

Tré- og dúkisturnar eru sumar komnar nokkuð til ára sinna en gegna mikilvægu  hlutverki í listsköpun Magdalenu Margrétar. Meginviðfangsefni hennar síðustu áratugina hefur verið konan og lífshlaup hennar sem hún vinnur útfrá eigin reynsluheimi, þar sem æskan, sakleysi, þroski og öldrun fléttast saman í kraftmikilli frásögn.

Magdalena Margrét lauk námi frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1984 þar sem hún lagði einkum stund á grafík.  Hún hefur hlotið styrki og viðurkenningar fyrir list sína, haldið fjölda einkasýninga og tekið þátt í samsýningum og listahátíðum hér á landi og erlendis.

Auk listsköpunar hefur Magdalena verið virk á myndlistarsviðinu, setið í ýmsum stjórnum á sviði myndlistar og komið að rekstri listhúsa. Hún hefur kennt áfanga í grafík við Myndlistaskóla Reykjavíkur og Listaháskóla Íslands.

Verk eftir Magdalenu Margréti eru í eigu Alþingis Íslendinga og helstu safna hér á landi auk safna í Svíþjóð, Japan og Kína.

Sýningin stendur til 4. september 2016.  Grafíksalurinn er opinn fimmtudaga til sunnudaga klukkan 14:00 til 18:00 og aðgangur er ókeypis.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com