Listaháskólinn

Gjörningaklúbburinn með opinn fyrirlestur í Listaháskólanum

Föstudaginn 31. janúar kl. 13 mun Gjörningaklúbburinn halda opinn fyrirlestur um verk sín og vinnuaðferðir í fyrirlestrarsal Listaháskólans að Laugarnesvegi 91.

Eirún Sigurðardóttir (f. 1971) og Jóní Jónsdóttir (f. 1972) skipa Gjörningaklúbbinn sem var stofnaður 1996 og er einn langlífasti myndlistarhópur landsins. Femínískar áherslur ásamt glettni og einlægni einkenna verk hópsins sem vinnur í þá miðla sem þjóna hugmyndum hans hverju sinni. Gjörningaklúbburinn nýtir sér gjarnan verkfræði ömmunnar, handverk og útsjónarsemi í verkum sínum í bland við glæsileika og nútímatækni.

Eirún Sigurðardóttir og Jóní Jónsdóttir, munu fjalla um þrjár einkasýningar frá síðasta ári og mismunandi vinnuferla að baki þeim. En sýningarnar sem um ræðir eru Nýjasta testamentið í Hverfisgalleríi, Valores sem þær unnu í samstarfi með Kiyoshi Yamamoto í KRAFT gallerí í Bergen og Vatn og blóð sem stendur yfir í Listasafni Íslands.

Valores, Gjörningaklúbburinn og Kiyoshi Yamamoto, 2019

Gjörningaklúbburinn á að baki fjölda einka- og samsýninga í söfnum og galleríum um allan heim, þar á meðal í ARoS-listasafninu í Danmörku, MoMA-samtímalistasafninu í New York, Kunsthalle Wien í Austurríki, Schirn Kunsthalle og samtímalistasafninu Hamburger Bahnhof í Þýskalandi, Amos Anderson-listasafninu í Helsinki og Lilith Performance Studio í Svíþjóð.

Gjörningaklúbburinn vann með Björk Guðmundsdóttur fyrir plötu hennar Volta árið 2007 og hefur unnið að fjölbreyttum verkefnum með listafólki á borð við GusGus, Ensemble Adapter, Ragnari Kjartanssyni og Kiyoshi Yamamoto.

Fyrirlesturinn fer fram á íslensku og er opinn öllum.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com