ListasafnÁrnesinga

GJÖFIN TIL ÍSLENZKRAR ALÞÝÐU ̶ sýningarspjall með safnstjóra Listasafns ASÍ

Í Listasafni Árnesinga stendur nú sýningin GJÖFIN TIL ÍSLENZKRAR ALÞÝÐU – stofngjöf Ragnars í Smára til Listasafns ASÍ, sem er samstarfsverkefni þessara tveggja safna. Sunnudaginn 1. september kl. 15:00 mun Elísabet Gunnarsdóttir safnstjóri Listasafns ASÍ ganga um sýninguna með gestum og ræða  um gjöf Ragnars í Smára sem lagði grunninn að Listasafni ASÍ. Elísabet er ritstjóri veglegs bókverks um gjöf Ragnars í Smára sem Listasafn ASÍ kom út sama dag og sýningin var opnuð og ber sama heiti GJÖFIN TIL ÍSLENZKRAR ALÞÝÐU. Í bókinni eru myndir af öllum verkunum sem tilheyra stofngjöfinni og grein um velgjörðamanninn Ragnar og listaverkagjöf hans eftir Kristínu G. Guðnadóttur listfræðing og sýningarstjóra sýningarinnar. Bókin er hönnuð af Arnari og Arnari og Sarah M. Brownsberger þýddi allan texta á ensku. Elísabet mun einnig svara spurningum og ræða núverandi starfsemi safnsins sem er mjög virkt þrátt fyrir að hafa ekki yfir eigin sýningarhúsnæði að ráða sem stendur. Safnið hefur staðið að ýmis konar útgáfu s.s. endurprentunum verka úr stofngjöf Ragnars í Smára, átt samstarf við önnur söfn, auglýst eftir tillögum frá starfandi listamönnum sem safnið setur upp sýningar með víðs vegar um landið og nýlega fékk safnið veglegan styrk úr Barnamenningarsjóði fyrir verkefni sem unnin eru í samstarfi við skóla um allt land.  

Á sýningunni í Listasafni Árnesinga má sjá 52 málverk af alls 147 sem Ragnar gaf Listasafni ASÍ. Mörg þeirra eru lykilverk íslenskrar listasögu þar á meðal Fjallamjólk Kjarvals ásamt verkum eftir frumkvöðlana Ásgrím Jónsson, Þórarinn B. Þorláksson, Jón Stefánsson og síðari kynslóð listamanna eins og Gunnlaug Scheving, Jón Engilberts, Júlíönu Sveinsdóttur, Nínu Tryggvadóttur, Svavar Guðnason, Þorvald Skúlason og fleiri, sem eru meðal þekktustu myndlistarmanna þjóðarinnar frá öndverðri síðustu öld.

Sem fyrr eru allir velkomnir á sýninguna og sýningarspjallið sunnudaginn 1. september. Aðgangur að safninu er ókeypis og síðasti sýningardagur er 15. september. 

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com