Chris Foster Twisted Plane Poster Image

Gallerý Grásteinn: Tvöföld sýn / Double vision

Sýning á málverkum og verkum á pappir
eftir enska listamanninn Chris Foster
í
Gallery Grásteini, Skólavörðustíg, 101 Reykjavík

3.- 30. nóvember 2020
opnun 15.00 – 18.00, þriðjudaginn 3. nóvember 2020

Sýningin samanstendur af abstrakt akrílmálverkum sem máluð eru á rétthyrnd og formuð spjöld og tveimur myndaröðum þar sem notaðir eru mismunandi blýantar, kol og blý á svartan pappír. Þetta er fyrsta sýning Chris Fosters á Íslandi og ekkert verkanna hefur áður verið sýnt.

Listamaðurinn
Chris Foster leggur stund á ýmsar listir, bæði í myndlist og tónlist. Hann stundaði nám í myndlist á Englandi, fyrst við Yeovil School of Art og Norwich School of Art (BA 1st class honours) en lauk síðan meistaraprófi frá Chelsea School of Art 1972.

Chris starfar sem tónlistarmaður og eftir að hafa lokið myndlistarnámi samræmdi hann sýningarhald við tónleikaferðir. Seint á áttunda áratugnum varð hann mjög virkur í hreyfingu sem kölluð hefur verið The British Community Arts Movement, þar sem þróaðar voru hugmyndir um hvernig hægt væri að stunda list þannig að margir gætu orðið þátttakendur og sameiginlegir höfundar. Chris tók einnig virkan þátt í baráttu fyrir menningarlegu lýðræði.

Á níunda og tíunda áratugnum vann Chris að sinni eigin myndlist en stýrði einnig verkefnum þar sem listafólk úr ýmsum greinum kom saman, hann átti frumkvæði að og leiddi ýmsa vinnu með allskonar fólki á öllum aldri, bæði í bæjum og sveitum Englands. Í verkefnunum fólst meðal annars að gera bæði málverk og mósaíkverk á veggi, en einnig ljósmyndasýningar, sáldprentun á veggspjöldum, viðburðir og hátíðir með margvíslegum listformum, sviðslistaverk, tónleikar og hljóðritun á tónlist.

Chris hefur búið á Íslandi síðan 2004 og varð íslenskur ríkisborrgari 2017. Síðan hann flutti til Íslands hefur hann farið í tónleikaferðir víða um heim og hljóðritað tónlist með Báru Grímsdóttur í tvíeykinu Funa, en samhliða hefur hann unnið að myndlist. Á einkasýningunni Tvöföld sýn / Double vision verður í fyrsta sinn hægt að sjá lítið úrval af þeirri vinnu.

Verkin – yfirlýsing listamanns
„Verkin á þessari sýningu eru einstök, handunninn og snúast 100% um sjónræna upplifun. Í þeim eru margræðnin og sambandið innan verks, sem áþreifanlegs hlutar, skoðuð, hvernig litir og litbrigði hafa áhrif á skynjunina á áferð þeirra og hrynjandina í máluðum formum á yfirborði þeirra.“

„Við gerð þessara verka rannsaka ég athafnir eins og ímyndun, sköpun, það að horfa á, sjá og bregðast tilfinningalega, vitsmunalega, líkamlega og menningarlega við þeirri athöfn að mála og setja mark á þann efnivið sem ég nota. Þetta er samt ekki vísindaleg rannsóknaræfing. Sköpunarferlið er algjörlega byggt á innsæi og spuna, þó að þar nýtist einnig bæði ævilöng reynsla og kunnátta í tækni.“

“Mikilvægur eiginleiki verkanna felst í því að ekki er hægt að endurtaka þau eða gera nákvæma eftirlíkingu þeirra án þess að breyta verulega hinni sjónrænu upplifun sem byggir á stærð þeirra, efnivið, litum, áferð og innbyggðri hrynjandi. Það verður að njóta þeirra á staðnum.“

“Ætlun mín er að skapa flókin myndverk sem ekki verða meðtekin eða skilin að fullu á stundinni. Sköpunarferlið er langt og þar er reynt að huga að því að verkin gefi áhorfendum verðugt íhugunarefni. Við fyrstu sýn geta verkin sýnst einföld en þegar betur er að gáð kemur í ljós að þar leynist meira en það sem virðist augljóst.“

Úrval af verkunum er hægt að skoða á heimasíðu Chris:
https://www.chrisfoster-iceland.com/paintings-drawings

RECYCLED ECHO 2020 95 x 61cm
WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com