Margrét Jónsdóttir

Gallerí Suðurgata 7 – 40 árum síðar!

Gallerí Suðurgata 7 var stofnað 1977 og 40 árum seinna sýna tveir af frumkvöðlunum saman þau Bjarni H. Þórarinsson og Margrét Jónsdóttir fyrrum makar og samstarfsmenn í Listamenn Gallerí Skúlagötu 32, 101 Reykjavík.

Opnun föstudaginn 27 október klukkan 5-7.

 

Andspænis þessari samsýningu þeirra Bjarna Þórarinssonar og Margrétar Jónsdóttur verður mér ósjálfrátt hugsað til venslakerfis hins fyrrnefnda. Hefði ég aðgang að slíku kerfi tækist mér hugsanlega að rekja saman myndlistarlegar rætur þessara reynslumiklu listamanna, kannski draga upp mynd af samræmdri sýn þeirra á veruleikann, eins konar marbjarnverska vísirós.

En ég veit ekki hvort þeim Bjarna og Margréti væri neinn greiði gerður með tilraun til að fella myndlist þeirra undir einn hatt eða sjónhátt (sjónhatt?). Allar götur frá því ég hóf fyrst að gefa þeim gaum, seint á áttunda áratugnum, hafa þau verið sér á parti, sui generis, óháð því hvernig vindar blésu í myndlistinni. Í hinu stóra samhengi hafa þau bæði að sönnu verið í viðræðusambandi við þau viðhorf sem jafnaldrar þeirra voru áhugasamir um: konseptlist, gjörningalist, bókverk, Flúxus og nýtt málverk. En upplegg þeirra, hvors fyrir sig, hefur ævinlega verið með mjög persónulegu, jafnvel sérviskulegu, marki brennt. Og stundum svo sérviskulegu að jafnvel innvígðir áhorfendur á borð við þann sem þetta skrifar hafa átt fullt í fangi með að fylgja þeim áleiðis. Kannski er sérlyndið það eina sem þau eiga sammerkt.

Í víðasta skilningi má segja að myndlist Margrétar sé kvenlæg, snúist um vitundalíf viðkvæmrar hæfileikakonu í samfélagi karlmanna. Og er ekki erfiðleikum bundið að bera kennsl á konuna. Því ef við skyldum velkjast í vafa um inntak táknmynda Margrétar og margbrotinna skírskotana, hefur hún fylgt þeim eftir með hárbeittum og tilfinningaþrungnum textum. Með tímanum hefur sjóndeildarhringur listakonunnar víkkað, snýst nú um mikið meira en viðhorf einstaklings, heldur tekur til aðstæðna í íslensku þjóðfélagi, sem Margrét telur einkennast af almennri mengun hugarfarsins. Myndir hennar fyllast af tilvísunum í upplausn, óreiðu og sundrung hlutanna, en þó með ívafi undarlega þokkafulls lifrófs, eins og til að minna á seiðmagn siðspillingar.

Ef myndlist Margrétar grundvallast á kvenlegu tilfinninganæmi, má segja að verk Bjarna séu sérstaklega karllægur samsetningur. Meðan Margrét veitir áhorfendum óhikað innsýn í afkima eigin tilfinninga, smíðar Bjarni utan um vitund sína hátimbrað og nánast ókleyft hugmyndakerfi, kerfi sem á engan sinn líka í íslenskri myndlist. Upphaf þessa kerfis má rekja til ársins 1987-88, þegar listamaðurinn hóf að auka textum við myndform sín, í því augnamiði að glöggva sig betur á innbyrðis tengslum þeirra. Með myndrænni meðhöndlun tungumálsins tókst honum að draga fram – eða búa til – skyldleika orða, hugtaka og huglægra forma. Þessa aðferðafræði felldi hann síðan inn í heimatilbúin kerfi, hvert með sínum beygingalykli. Lyklarnir nýtast honum síðan til sköpunar nýrra orða, hugtaka og forma, og nánast endalausrar margföldunar þeirra í sífellt nýju samhengi. Utan um þessi fræði hefur hann síðan búið til fræðigreinar og stofnun sem hann nefnir Vísiakademíu.Öll listsköpun Bjarna á sér síðan stað innan vébanda þessarar stofnunar, sem er hans einstaka hugarsmíð og lén.

Fyrir utan allt annað sem gerist í verkum þeirra Margrétar og Bjarna má líta á þau sem fulltrúa þeirra tveggja myndlistarviðhorfa sem borið hafa uppi vestræna listsköpun frá örófi alda, hins tryllingslega dýónísíska algleymis annars vegar og hins appólóníska skipulags hins vegar.

Aðalsteinn Ingólfsson

 

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com