GalleryPort

Gallerí Port: Helgi Þórsson & Steingrímur Eyfjörð – Valsað milli vídda

Helgi Þórsson og Steingrímur Eyfjörð opna sýninguna Valsað á milli vídda í Gallery Port, laugardaginn 6. júní kl. 16:00.

Sýningin er opin miðvikudaga til sunnudaga frá 13:00 – 18:00 til 21. júní.

Þriðja veran 

Margir hafa hugsað og jafnvel fært í orð hugmyndina um að þegar tveir komi saman til að vinna að verki, verði til þriðja aflið. Þetta afl er hvorki annar eða hinn, heldur sé eins og að þriðja persónan verði til. Það sem kemur út úr samstarfinu verður þá eitthvað sem hvorugur hefði gért einn. Það er eins og til verði þriðja aflið sem taki stjórn. Það væri þá það sem kallað sé; “þriðja veran”.

Þegar Steingrímur var að tala um að honum vantaði texta um þetta, datt mér skyndilega í hug annar vinkill. Sá vinkill er að þessi þriðja vera verður ekki bara til við að tveir komi saman, heldur er þriðja veran líka með okkur þegar við erum ein að vinna.

Hvernig þá? Spyrja eflaust flestir. Nú, þegar Steingrímur er einn að vinna á vinnustofunni sinni, eða Helgi, eða þú, eða ég, þá höldum við jú að við séum ein að vinna og að þá sé ekki nein þriðja vera til staðar. Við hugsum að þriðja aflið eða veran verði bara til þegar tveir vinna saman. En það er nefnilega kannski ekki svo einfallt. Og ég er að reyna að benda á að þessi víxlverkun á sér einnig stað þegar við erum ein. Við erum alltaf með huglæga samverkamenn. Þetta eru engin andleg hjátrúarvísindi, heldur einföld staðreynd sem hægt er að draga upp skýra mynd af. Og það ætla ég að fara frekar út í.

Það að við séum ein að skapa þegar við erum ein á vinnustofunni er jú að vissu leyti rétt. Það er enginn annar sýnilegur í vinnustofunni. En við erum alltaf undir áhrifum. Þegar við höfum lesið bók, þá erum við ekki söm eftir. Þegar við höfum séð annað listaverk, verðum við fyrir áhrifum og erum ekki söm eftir. Öll þessi áhrif eru með okkur þegar við erum að vinna, og þannig erum við þá ekki ein, heldur undir áhrifum. Þannig er það sem við erum að fást við ekki frá okkur komið heldur er það samansett úr hugmynd okkar og áhrifum frá öðrum. Þessi blanda, við og áhrifin, búa til nýja persónu, sem er “hið nýja ég” sem er að búa til nýtt verk. En þetta “nýja ég” er þriðja veran.

Málið er, að í samfélagi mannana, sem við erum alltaf óumflýjanlega hluti af, þá er aldrei neinn einn. Allt sem við gerum, er gert í samtali við alla hina í samfélaginu hvort sem við gerum okkur ekki grein fyrir því eða reynum að afneita því. Við erum jú ein á vinnustofunni, en við erum að vinna með hugmyndir sem aðrir hafa unnið að, við vinnum með efni sem aðrir hafa fundið upp og tilreitt, við vinnum í stíl sem jafnvel aðrir hafa fundið upp, og við erum að koma með mótsvar eða viðbótarfléttu við list sem aðrir hafa gert áður. Ekkert sem við gerum, kemur frá okkur sjálfum að fullu. Við fundum ekki upp tungumálið sem við tölum, ekkert okkar fann upp listina sem fag, og allt sem við gerum eru tilvísanir. Tilvísanirnar, eru gerðar til hluta sem aðrir hafa gert. Og þessir aðrir, þó þeir séu ekki í líkama sínum í vinnustofunni okkar þegar við erum að vinna, eru til staðar í gegnum áhrif. Blanda áhrifanna, eða presens annarra og okkar, býr í sífellu til þriðja aflið.

Við vitum að það þarf ekki að vera í sama rými til að tala saman, við getum notað farsíma til að spjalla og þannig er hægt að vinna saman þó maður sé ekki í sama rými. En það sem ég er að reyna að benda á er að það er alltaf einhver með okkur, þó við séum ein að vinna. Og þess vegna verður alltaf þriðja aflið til, sem er samblanda af okkur og svo öllum hinum sem hafa áhrif á okkur. Þegar við höldum að við séu ein og að skapa eitthvað sjálf, þá erum við alltaf undir áhrifum, og því er alltaf hið þriðja afl, eða þriðja veran, að störfum. Enginn starfar einn. Í rauninni er aldrei til hreinn Helgi eða hreinn Steingrímur, þeir eru alltaf undir áhrifum,
ef það er ekki af hvorum öðrum, þá af einhverjum öðrum, í gegn um hughrif.

Áunnir eiginleikar verða stundum til þegar tveimur efnum er blandað saman. Til dæmis er Chlorin óætt og sódíum er einnig alls ekki hæft til átu. En ef þessum tveimur efnum er blandað saman, verður til það sem kallað er borðsalt, og fólk borðar í tíma og ótíma. Blanda sódiums og Chlorins fær aðra eiginleika sem hvorugt þeirra hefur eitt og sér. NaCl sem stendur fyrir borðsalt og smakkast ágætlega og fer vel í magann, hefur lítið að gera með sódíum eitt og sér eða Chlorin.

Þegar Helgi og Steingrímur vinna saman, verður til þriðja aflið, einhvers konar borðsalt, eða þriðja veran, listamaður sem er hvorki Steingrímur né Helgi. En þegar Helgi vinnur einn, þá er hann líka ekki einn, hann er sjálfur þriðja vera, borðsalt, sem er settur saman úr allskonar hlutum. Og Steingrímur er líka ekki til í hreinu formi, heldur er hann líka alltaf blanda af einhverju öðru. Hvorki Steingrímur né Helgi eru hreint form, og þriðja veran þeirra á milli er heldur ekki hreint form, heldur blanda af Helga og Steingrími. Fáir borða salt eitt og sér, en út á soðið egg verður til góð blanda. Við erum öll blöndur, þó við upplifum okkur sem sódíum, natríum, borðsalt eða egg. Ekkert er til sem er hreint ástand, allt er undir áhrifum og því er þriðja veran omnipresent, alltaf til staðar, í raun er þannig hið guðumkennda afl sem bindur allt saman, eins konar samnefnari. Þriðja veran, er alls staðar, í okkur einum og í okkur saman.

Það er með öðrum orðum ekki til neitt hreint form, allt er blanda, hvort sem maður vinnur einn eða með öðrum. Og það er vinkillinn sem ég vildi bæta við hugmyndina um þriðja aflið sem verður til þegar tveir koma saman. Þetta þriðja afl er alltaf með okkur.

Skrifað í flýti í Myndhöggvarafélaginu, Nýlendugötu 15, 101 Reykjavík, þann 29. maí 2020

Egill Sæbjörnsson

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com